S íðustu helgi varð opinber taugaæsingur vegna sjónarmiða eins prests um trúnaðarskyldu prests og skjólstæðings og hvort prestur gæti verið skyldugur að rjúfa slíkan trúnað. Tvennu var einkum haldið fram í umræðunni, gjarnan af sama fólkinu. Í fyrsta lagi bæri öllum að fara að lögum, enginn gæti hafið sig yfir lögin, jafnvel þótt hann væri ósáttur við þau. Í öðru lagi yrðu hagsmunir barnsins alltaf að ganga fyrir.
Í þessu samhengi vísuðu flestir til ákvæða barnaverndarlaga og álitu að þau bæri að skilja þannig að á prestum væri þar gerð tilkynningarskylda sem slægi alla þagnarskyldu út. Vefþjóðviljinn er raunar alls ekki sannfærður um að það sé réttur skilningur, en horfum fram hjá því að sinni. Einu væri gaman að fá svar við: Ef lögum yrði breytt og sett inn sérstakt ófrávíkjanlegt ákvæði, þess efnis að hvað sem á dyndi mætti prestur ekki rjúfa trúnað sem hann hefði heitið skjólstæðingi, hvað þá? Hvað myndu þeir gera vefskrifararnir, vígðir sem óvígðir, sem hópuðust gegn prestinum sem vildi virða trúnaðarskylduna? Myndu þeir, eftir slíka breytingu, telja að presti bæri að halda trúnaðinn og setja hann ofar „hagsmunum barnsins“? Varla myndu þeir líta svo á að þeir væru „hafnir yfir lögin“.
M enn þurfa ekki að fylgjast lengi með íslenskri umræðu um kynferðisbrot til að læra að þar er mönnum hollast að syngja með eða þegja. Þótt allir sæmilegir menn séu auðvitað mjög á móti kynferðisbrotum, bæði þeim sem beinast að börnum og þeim sem fullorðið fólk verður fyrir, þá er sú afstaða ekki nægileg til að mega taka þátt í opinberum umræðum um þau. Í þeirri umræðu er margs annars að gæta, hugsanalögreglan fylgist vel með og finnur verstu túlkunarmöguleika hvers kyns orða, og þeir sem ekki sýna fyllstu gát verða skyndilega staddir úti í horni með Björgvini Björgvinssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni.
Ef marka má fréttamenn Ríkisútvarpsins þá hafa síðustu daga allar sakir sannast á látinn biskup kirkjunnar, því fréttamenn bæði útvarps og sjónvarps nota nú framsöguhátt en ekki viðtengingarhátt þegar þeir segja frá brotum sem nafngreindar konur „urðu fyrir“ af hans hálfu fyrir rúmum þrjátíu árum. Viðmælendur eru spurðir alvarlega hvort þeir trúi ekki örugglega ásökununum, og eftir á verða vangaveltur um hvort svarað hafi verið af nægilegri sannfæringu. Geta menn af sanngirni heimtað slík svör af þessum mönnum um látinn mann? Er hægt að ætlast til afdráttarlausra svara frá þessum mönnum? Nú er ljóst að fréttamennirnir trúa ásökunum á biskupinn, og vafalítið yrðu þeir þá í hópi mikils meirihluta þeirra landsmanna sem hafa myndað sér skoðun á málinu, en þegar þeir eru í fréttamannshlutverkinu þá ættu þeir ekki síður að vanda sig í þessum málum en öðrum. Hitt er svo annar hlutur, hvað menn nú telja líklegast að hafi gerst, og þá einkum þegar fjölgar þeim sem segja svipaða sögu og fyrst heyrðist. Menn geta hæglega komist að niðurstöðu um slíkt með sjálfum sér, þótt þeir geti ekki hrópað hana á torgum eða krafist þess af opinberum aðilum að þeir taki undir. Flestir óbloggandi Íslendingar, og margir bloggandi, átta sig líka á því, að það getur verið mikil gjá milli þess sem menn telja líklegt að hafi gerst, og svo þess sem þeir geta fullyrt fyrirvaralaust.