Þriðjudagur 17. ágúst 2010

229. tbl. 14. árg.

N ú hafa slökkviliðsmenn gengið of langt. Auðvitað má hafa samúð með þeim í þeirra kjarabaráttu, en þessar aðgerðir þeirra eru úr öllu hófi. Fyrst höfðu þeir uppi fráleitan hræðsluáróður við fólk, sem ætlar að fljúga innanlands, og reyndu að hræða fólk frá því. Næst tóku þeir upp á því að meina fólki með valdi að komast út í flugvélar, þó það hafi keypt farmiða dýrum dómum. Og í gær hertu aðgerðir sínar og slökktu hreinlega eldinn sem kviknað hafði í Tónlistarhúsinu í Reykjavík.

E itt það fyrsta sem vinstristjórnin gerði til að slá gjaldborg um heimilin var að hækka bæði virðisaukaskatt og tekjuskatt, auk allra annarra skatta. Virðisaukaskatturinn er nú sá hæsti sem sögur fara af í vetrarbrautinni. Það næsta sem stjórnin gerði svo var að viðurkenna að skattarnir væru orðnir alltof háir með því að bjóða mönnum afslátt af virðisaukaskatti og svo tekjuskatti gegn ákveðinni hegðun. Til að fá þennan afslátt þarf fólk að kaupa menn til að breyta eða bæta hjá sér húsnæði. Það kostar auðvitað að fá afsláttinn. Afslátturinn er með öðrum orðum hugsaður fyrir þá sem eiga fé aflögu til framkvæmda, Hinir sem berjast í bökkum og eiga vart fyrir helstu lífsnauðsynjum eða afborgunum vísitölutengdra lána, sem ríkisstjórnin hefur snarhækkað með álögum á vörur og þjónustu, mega eiga sig.

Flest svona opinber reddingakerfi eiga það sammerkt að gagnast helst örðum en þeim sem þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda. Frægast dæmið er fæðingarorlofskerfið sem einkum hátekjufólk hefur notið góðs af. Því betur staddur því hærri bætur, var formúlan sem allir þingmenn nema einn samþykktu á Alþingi vorið 2000. Svo eru menn undrandi á því að ríkissjóður sé gargandi gjaldþrota. Ja, nema þeir sem segja öll vitleysisútgjöldin frjálshyggjunni að kenna.