Þ að er til marks um viðskiptavit Andríkis að þegar félagið opnaði bóksölu á vefnum, þá var það gert frídag verslunarmanna. Þann dag eru færri Íslendingar á netinu en aðra daga.
Þar sem verslunarmannahelgin er jafnan á svipuðum árstíma leiða þessi klókindi Andríkis jafnframt til þess, að færri en ella nýta sér tilboð sem stundum hefur verið boðið upp á, í tilefni afmælis bólsölunnar. Á einu afmælinu var til dæmis það boðið, að hver einasti bókakaupandi fengi að auki eins árs kynningaráskrift að tímaritinu Þjóðmálum í boði Bóksölunnar, og reyndist það dýrara spaug en búist hafði verið við.
Í dag eru fimm ár liðin frá opnun Bóksölu Andríkis og af því tilefni, og af því að félagið sýnir samkennd með stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar og lærir ekki af reynslunni, hefur verið ákveðið að bjóða þetta sama afmælistilboð nú að nýju. Hver sá, sem næstu tvær vikurnar kaupir eina bók eða fleiri í Bóksölu Andríkis, og er ekki áskrifandi Þjóðmála, fær í kaupbæti sér að kostnaðarlausu eins árs kynningaráskrift að þessu prýðilega tímariti, sem allir áhugamenn um þjóðmál og menningu ættu hvort eð er að vera áskrifendur að.
En þeir bókakaupendur, sem eru áskrifendur að Þjóðmálum, hvað fá þeir? Jú, þeim er ekki gleymt og í tilefni afmælisins fá þeir ókeypis áminningu um að lífið er ekki alltaf sanngjarnt.
Í Bóksölu Andríkis eru nú til sölu þrjátíu bækur eftir ýmsa ólíka höfunda, lífs og liðna, vel metna og illa liðna. Þá fást í bóksölunni stök eintök eldri hefta Þjóðmála, en í þeim er margt hnýsilegt að finna og betri helgarlesning en margt annað. Vefþjóðviljinn ætlar ekki að þylja hér upp allan lagerinn en geta má nokkurra bóka, og þá fremur vegna ágætis þeirra en vegna þess að þær hafi ekki verið nefndar í blaðinu áður.
Í fyrsta lagi… og þó. Áhugasamir geta bara farið sjálfir inn á Bóksöluna og lesið sér til. Hinir gangi hnarreistir út úr tjaldinu, hvar sem þeir eru á landinu, og hlýði á Ingólf og veðurguðina sem spila alls staðar um helgina og skyldi engan undra: „Ef ég ætti konu, ég myndi bjóða henni á hverju ári sólarlandaferð fyrir tvo. / Ég myndi panta einkanudd upp á herbergi, borga og fara svo.“