S amfylkingin er eiginlega einstök í sinni röð. Hjá henni kemst ekkert annað að en hún sjálf. „Ég vil, ég vil, ég vil.“ – „Ég er ein í heiminum.“ Ef einhver flokkur er líklegur til að læra listina að orga af frekju, þá er það hún.
Þessi eiginleiki þriggja ára barnsins kemur skýrast fram í Evrópusambands-frekju Samfylkingarinnar. Nú er auðvitað ekkert við því að segja að stjórnmálaflokkur reyni að vinna stefnumáli sínu stuðning og ná því fram, jafnvel með nokkurri ýtni. En frekja og tillitsleysi Samfylkingarinnar, sem heimtar að allt stjórnkerfið vinni að framgangi þessa lífsbaráttumáls Samfylkingarinnar, þrátt fyrir að enginn styðji það nema Samfylkingin, er af allt öðrum toga. Tillitsleysið við svokallaðan samstarfsflokk, sem þó hefur ekki gert Samfylkingunni annað til miska en að leiða hana til valda og fela henni forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti, er svo sérstakur sálfræðikafli í stjórnmálasögunni.
Innganga í Evrópusambandið er ekki eitthvert venjulegt mál, sem Alþingi getur ákveðið fyrir sitt leyti, en síðari Alþingi breytt, ef þannig ber undir. Innganga í Evrópusambandið er innganga í erlent ríkjasamband sem ekki yrði aftur tekin. Enginn stjórnmálaflokkur nema Samfylkingin vill þetta. Samt heimtar hún að haldið verði áfram, og gargar og gólar ef því er andæft.
Trúverðugleiki vinstrigrænna hefur nær horfið, með því að flokksforystan gekk á bak ítrekaðra yfirlýsinga og lét inngöngubeiðnina yfir sig ganga. Jafnvel nánir félagar flokksformannsins kalla hann „ómerking“ opinberlega vegna þessa. Flokkurinn leikur á reiðiskjálfi, eins og skiljanlegt er, því ekki vilja allir þar innanborðs fara niður með skipinu, þótt Steingrímur J. Sigfússon virðist enn vera svo reiður eftir stjórnarmyndunina 2007 að hann sjái ekki það sem blasir við flestum öðrum. Þetta er Samfylkingunni alveg sama um. Henni gæti ekki verið meira sama um „samstarfsflokk“ sinn. „Ég vil, ég vil, ég vil“, segir hún og svo lengi sem Steingrímur J. Sigfússon bæði vill og getur hýtt flokksmenn sína til hlýðni, þá mun Samfylkingin komast upp með þessa framgöngu.
Sumir telja að baldin börn megi ekki fá annað uppeldi en vinsamlegt tiltal, sem í mesta lagi verði fylgt eftir með fimm mínútna dvöl í skammarkróknum, en eftir það sé tilvalið að þau fái leikföngin aftur. Hvað sem um þau uppeldisvísindi má segja, þá blasir við að tiltal og alvarlegar áminningar eru fullreyndar í tilfelli Samfylkingarinnar. Hins vegar kann að vera að gamaldags flenging geti þar enn komið að nokkru gagni.