T veir þingmenn vinstrigrænna hafa nú lýst yfir að þeir styðji ekki ríkisstjórnina lengur nema hún “rifti samningum sem kenndir eru við Magma. Báðir þingmenn eru mjög á móti inngöngu í Evrópusambandið. Það haggar hins vegar ekki stuðningi þeirra við ríkisstjórnina, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum.
V efþjóðviljinn minnist stundum á blessað íslenska ríkisútvarpið og vinstrislagsíðuna þar. Þótt hún sé töluverð, þá er hún auðvitað ekki komin til af því að fréttamenn og aðrir starfsmenn sitji á klíkufundum sem hafi það að yfirlýstu markmiði að finna nú leiðir til að halla réttu máli og knýja fram stjórnmálaviðhorf viðstaddra. Oft átta fréttamenn sig líklega ekki á slagsíðunni sem þeir skapa með fréttaflutningi sínum, því þeir ganga einfaldlega út frá sínum eigin skoðunum sem vísum hlut.
Lítið nýlegt dæmi, sárasaklaust auðvitað, en sýnir svolitla mynd af hugsunarhætti. Ríkisútvarpið sagði þá frá gagnrýni sem komið hefði fram á störf Bandaríkjaforseta. Í inngangi fréttarinnar sagði:
Barack Obama Bandaríkjaforseti sætir gagnrýni viðskiptaráðs Bandaríkjanna sem segir efnahagsstefnu hans og demókrata á þingi skaðlega, hún dragi úr hagvexti og sköpun atvinnutækifæra, og einkennist af flókinni lagasetningu, fjölgun reglugerða og skattlagningu. |
Svo tók fréttamaðurinn við og las upp frétt sína. Þá kom fljótt í ljós hvort hann teldi þetta marktæka gagnrýni eða ekki:
Obama óttast að þessi áróður móti viðhorf kjósenda í þingkosningunum vestanhafs í haust og hefur fengið Bill Clinton fyrrverandi forseta til liðs við sig en hann er vinsæll maður, bæði meðal fjármálamanna og almennings. Clinton sat fund með forsetanum og forystumönnum úr viðskiptalífinu í Hvíta húsinu í gær á dagskrá voru hugmyndir um að greiða fyrir fjárfestingum og atvinnusköpun. |
Auðvitað ætlaði fréttamaðurinn ekki að vera hlutdrægur, eða Vefþjóðviljinn gefur sér það að minnsta kosti. Hann ætlaði ekki að lýsa persónulegri skoðun á neinu. Hann sá einfaldlega ekkert að því að lesa yfir áheyrendum að þessi gagnrýni væri bara áróður, en flestir munu líklega leggja neikvæða merkingu í hugtakið áróður, eins og þar var notað þarna.
Daginn eftir sagði Ríkisútvarpið frétt um ný lög um “umbætur á bandaríska fjármálakerfinu. Þuldi fréttamaður þá upp í löngu máli hvað þeir Obama og fjármálaráðherra hans segðu nýju lögunum til ágætis. Ekki var orð sagt um það hvað aðrir hefðu gagnrýnt í lögunum, sem hlýtur þó að hafa verið eitthvað, því fram kom í fréttinni að lögin hefðu verið samþykkt í öldungadeildinni með 60 atkvæðum gegn 39.
Þetta eru afar smávægileg dæmi og ef Ríkisútvarpið gengi ekki lengra en þetta, myndi Vefþjóðviljinn ekki minnast á þetta. En þetta eru saklaus og lítil dæmi, sem segja sína sögu. Og þá er bara spurningin: Dettur einhverjum í hug að íslenska ríkisútvarpið hefði kallað gagnrýni á George W. Bush “áróður, eða rakið hvað hann og Rumsfeld segðu um ný lög en ekki minnst á hvað gagnrýnendur hefðu sagt?