H inn upprétti maður horfir á heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu, þótt hann sé sjaldnast uppréttur við þá iðju. En hugurinn er samt uppréttur og í honum er annarhver áhorfandi sjálfur á vellinum og gerir þar öðrum leikmönnum skömm til með leikni sinni. En heimsmeistarakeppnin er ekki aðeins tilvalinn dagdraumavöllur fyrir þá sem allt geta úr sófanum, heldur gerist þar einnig margt sem bregður ljósi á lífið utan vallar.
Meðal smáatburða síðustu heimsmeistarakeppni var leikur Argentínumanna við þá frá Mexíkó. Þar var Argentínumönnum dæmt mark en í sjónvarpsendursýningu sást að dómaranum hafði skjátlast og sóknarmaður Argentínumanna var í raun rangstæður þegar hann „skoraði“. Hinn óvenjulegi þjálfari Argentínumanna, Diego Maradona, var eftir leik spurður um það mark sem hans mönnum hafði ranglega verið dæmt, og taldi ekkert óréttlæti á ferlinum: Hans maður, Messi að nafni, hefði nefnilega oft verið sparkaður niður, án þess að nokkuð yrði dæmt. Ef menn vilja ræða óréttlæti í dómgæslu þá eiga þeir að ræða meðferðina á Messi, sagði Maradona, annars hef ég ekkert við þá að tala.
Þessi viðbrögð Maradona, sem er heldur meiri snillingur innan vallar en utan, eru algengari en margan grunar. Íslensk umræða um alvarleg mál á það til að þróast með sama hætti. Hvernig hefur umræðan um fjármögnunarfyrirtæki, lánakjör og nýlega dóma Hæstaréttar ekki farið hjá mörgum? Sumir virðast ófáanlegir til að ræða málið án þess að snúa umræðunni um eitthvað annað, þar sem þeir telja sig kannski hafa þykkari ís undir fótum: Fjármögnunarfyrirtækin hafa alltaf verið óskaplega vond, ómanneskjuleg og harðneskjuleg, er sagt. Um netið er dreift frásögnum af duglegum mönnum sem hafa lent í klóm fyrirtækjanna og verið gerðir ótal afarkostir og allt endað skelfilega. Fólki bregður eðlilega illa við og hugsar með sér að svona ómennafyrirtæki geti nú ekki haft rétt með sér. Lánin, sem fólk að vísu slóst um að fá að taka, voru bara ólögleg og helst ætti að fangelsa annan samningsaðilann.
En gallinn er að þetta svarar í engu þeirri spurningu hvernig reikna bæri gengisbundnu lánin, jafnvel þótt svo færi að gengisbindingin ein og sér teldist ólögleg. Þegar það verður skoðað skiptir engu máli hvort fjármögnunarfyrirtækin eru í eigu illmenna eða ljúflinga, rétt eins og það skiptir engu máli hvernig lántakendurnir eru innrættir. Þeir sem vilja beina umræðunni frá umræðuefninu en að hryllingssögum um eitthvað annað, taka þá áhættu að verða grunaðir um að hafa sama málstað og Maradona karlinn. Það er eflaust rétt að fjármögnunarfyrirtækin hafi oft fylgt rétti sínum fram af fyllstu hörku og lítilli tilhliðrunarsemi við fólk í erfiðleikum. Menn geta haft þá skoðun að slíkt sé fjarri því að vera fallega gert eða virðingarvert, en það svarar því miður engum spurningum um rétt eða réttleysi manna nú. Ekki frekar en sóknarmaður Argentínu hefði orðið réttstæður við ljót brot á Messi fyrr í leiknum.