Fimmtudagur 1. júlí 2010

182. tbl. 14. árg.

Þ að er í raun skrítið að fylgjendur aðildar Íslands að ESB skuli vera svo sárir eftir ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi.

Ísland er í mjög nánu samstarfi við bandalagið, eiginlega eins nánu og hægt er að hafa slíkt samstarf án aðildar. Það er ekki eins og landsfundurinn hafi samþykkt að Ísland segði sig úr EES-samstarfinu. Þessu til viðbótar er Ísland einmitt búið að sækja um aðild og ESB búið að heiðra landsmenn með því að nota 17. júní til að afgreiða umsóknina. Allt fjaðrafok Sjálfstæðra Evrópusambandssinna undanfarna daga kemur því spánskt fyrir sjónir. Þeir hafa svo gott sem allt sem þeir vilja með EES og vinstri stjórnin er búin að lofa þeim því sem eftir var á óskalistanum. Það er eitthvað bogið við það að vera froðufellandi við þessar aðstæður. Allt uppþotið ber þess raunar merki að andstæðingar flokksins telja sig hafa fundið snöggan blett á honum og reyna að búa til hasar í fjölmiðlum. Það er umhugsunarefni fyrir Sjálfstæða Evrópusambandssinna hve lengi þeir ætla að láta nota sig í þeim tilgangi.

Sjálfstæðir Evrópusambandssinnar segjast vonsviknir með að ekki hafi tekist að komast að niðurstöðu í Evrópumálum sem „allir flokkmenn geti sætt sig við“. Nú má efast um að slík niðurstaða sé til í nokkru máli. Nema kannski í þessum blessuðu Evrópumálum. Er ekki EES samningurinn einmitt sú málamiðlun?

Á laugardaginn var hér minnst á tilraun til að troða femínisma upp á Sjálfstæðisflokkinn. Það mistókst að verulegu leyti því drögum að jafnréttisáætlun var breytt mjög á landsfundinum. Hins vegar eru enn í þessari ályktun leifar úr drögunum. Þar segir meðal annars:

Við skipun í nefndir og ráð á vegum Sjálfstæðisflokksins ræður fagþekking og hæfni mestu um val einstaklinga.

Einu sinni þótti þekking duga til ýmissa verka. Nú er það „fagþekking“, takk fyrir. Ætli fagþekkingarsamfélagið fylgi þá ekki í kjölfarið á þekkingarsamfélaginu? Hvaða rugl er þetta? Ef Sjálfstæðisflokkurinn stofnar nefnd um íþróttamál mega þá helst bara íþróttakennarar sitja í nefndinni? Aðeins sjávarútvegsfræðingar í sjávarútvegsnefnd? Bara umhverfisfræðingar í umhverfisnefnd? Og hvað þá með nefnd um Evrópumál? Eru ekki allir Evrópusfræðingarnir örugglega í Samfylkingunni? Verða nefndarmenn með „fagþekkingu“ á Evrópu þá bara leigðir frá einhverju ráðgjafafyrirtæki?

Hvað varð um gamla góða áhugann, skoðanir og hugsjónir?

Er fólk sem skrifar svona lagað ekki að misskilja tilganginn með starfi stjórnmálaflokka? Svona svipað og fólkið sem vill að flokkar hafi stefnu sem allir geti sætt sig við?