Föstudagur 18. júní 2010

169. tbl. 14. árg.

F orsætisráðuneytið heldur úti heimasíðu og birtir þar ræður sem Jóhanna Sigurðardóttir les á opinberum vettvangi. Eftir að ráðuneytismenn uppgötvuðu hvernig þeir höfðu farið að ráði sínu í þjóðhátíðarræðunni, breyttu þeir ræðutextanum sem birtur er á vefsíðu ráðuneytisins. Fyrst hafði þar verið birt, svo sem Jóhanna hafði þulið á Austurvelli, að Jón forseti hefði fæðst á Hrafnseyri við Dýrafjörð, en um miðjan dag var búið að breyta textanum og var Jón þá aftur orðinn Arnfirðingur, eins og hann hafði verið, með stuttu hléi, frá 1811.

Kannski finnst einhverjum þetta lítið mál. En þarna er ekki einstaklingur að breyta færslu á eigin heimasíðu. Þarna er heimasíða forsætisráðuneytisins að breyta texta í ræðu, frá því sem ráðherrann flutti hann opinberlega, og er nú birtur annar texti, sem ráðherrann flutti alls ekki.

Ætli þetta hafi verið gert oftar? Er eitthvað að marka þær ræður sem lesa má á síðunni og sagt er að Jóhanna hafi flutt? Er síðunni ekki ætlað að auðvelda fólki heimildaleit í því sem forsætisráðherra hefur sagt, fremur en að vera endursögn af því sem starfsmenn ráðherrans vildu að hefði verið sagt?

Þótt málið sé eflaust lítið í huga ýmissa, þá segir það sögu um viðhorf manna í forsætisráðuneytinu: Það kemur illa út fyrir Jóhönnu að hafa sagt það sem hún sagði, og þá er því bara breytt eftir á, og þá sagði hún það aldrei.

Það hefði ekkert verið að því að gera athugasemd á síðunni, um að ráðherrann hefði gert mistök og það rétta væri þetta og þetta. Það er eðlileg leiðrétting. En þessi breyting, sem gerð var á heimasíðu forsætisráðuneytis sem heldur til haga ræðum ráðherrans, er annað mál. Hún er eiginlega fölsun.

E f George W. Bush Bandaríkjaforseti hefði haldið ræðu 4. júlí og farið rangt með jafn alþekkt atriði úr sögu Bandaríkjanna, hvernig ætli intellígensían á Vesturlöndum hefði látið? Ætli menn hefðu látið góðlátlegt grín nægja? Eða ætli menn hefðu kannski frekar talið sig hafa fengið enn eina sönnunina fyrir því að Bush væri vangefinn?

Á næsta ári verða tvær aldir liðnar frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, það er að segja Jóns forseta en ekki þess í Fjármálaeftirlitinu. Greint var frá því í gær að í tilefni afmælisins yrði efnt til ritgerðarsamkeppni, þar sem þátttakendur myndu skrifa forsetanum bréf, undir fyrirsögninni kæri Jón.

Það er ósanngjörn regla sem gefur Róbert Marshall, þingmanni Samfylkingarinnar, forskot.