Þ að er til marks um algjöra og í raun sorglega einangrun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að hún veik ekki einu orði að Evrópusambandinu í þjóðhátíðarræðu sinni á Austurvelli í dag. Jafnvel ekki í endurskoðuðu útgáfunni sem birt var á vef stjórnarráðsins.
Þó var ráðherraráð sambandsins að leggja blessun sína yfir aðildarviðræður við ríkisstjórn Jóhönnu á meðan hún talaði.
Þó hafði Andríki á sunnudaginn var birt niðurstöður viðhorfskönnunar sem sýndi að meirihluti landsmanna vildi draga umsóknina til baka. Flestum ofbýður einnig kostnaðurinn af aðildarbröltinu þótt tekið sé mark á tölum frá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra um það efni.
Þó er það staðreynd að enginn stjórnmálamaður hefur talað oftar um mikilvægi vilja þjóðarinnar og skoðanir fólksins en forsætisráðherrann. Hún stofnaði jafnvel stjórnmálaflokk árið 1995 sem nefndur var Þjóðvaki – framboð fólksins. En nú eru skoðanir fólksins þannig að Jóhanna minnist ekki á þær og fjölmiðlar ná ekki tali af henni vegna málsins. Hún er í sínum eigin heimi.
Jóhanna og ríkisstjórn hennar ætti að byrja á því að huga að eigin aðild að íslensku þjóðfélagi áður en hún hefur forgöngu um aðild Íslendinga að ríkjasamböndum. Um það eru svo margar vísbendingar. Nú falla öll vötn til Arnarfjarðar.