Í gærkvöldi fóru fram eldhúsdagsumræður á Alþingi og voru óvenjulega frasakenndar.
Meðal ræðumanna var Margrét Pétursdóttir, sem nú situr sem varamaður fyrir Vinstrigræna. Hún má þó eiga að hún hélt uppi vörnum fyrir stjórnmálastarf og andæfði þannig álitsgjafaspekinni sem nú veður uppi. En svo tóku frasarnir við hjá henni eins og flestum öðrum. Einn frasi sem veltur uppúr mörgum kom í ræðu hennar. Hún sagði að stjórnmálin sem slík hefðu ekki hrunið, en hins vegar hefði „vond pólitík hrunið“. Hér hefði ríkt vond hugmyndafræði frjálsræðis og einstaklingshyggju sem öllu hefði komið í kaldakol. Hún kvaðst ekki þurfa að rökstyðja það sérstaklega, um það talaði „skýrsla Rannsóknarnefndar alþingis“ skýru máli.
Eins og venjulega bera menn rannsóknarskýrsluna fyrir kenningum sínum, án frekari rökstuðnings. En hvað segir í skýrslunni sjálfri, sem stjórnmálamenn og fréttamenn virðast ekki vita af?
Sumir hafa eflaust skilið fréttir af skýrslunni svo, að rannsóknarnefndin gagnrýni harðlega efnahagsstjórn áratuganna fyrir bankahrun. Sú mynd er ekki rétt. Skýrsluhöfundar segjast þvert á móti lýsa „framfaraskrefum sem stigin voru á undanförnum áratugum og eiga þátt í stórbættum lífskjörum almennings á Íslandi“. Þeir fagna ábyrgri fiskveiðistjórnun, útbreiddri verðtryggingu lánsfjár, og nefna sérstaklega með ánægju að „vaxtafrelsi, markaðsvæðing og brotthvarf hins opinbera úr atvinnurekstri, opnun hagkerfisins og afnám viðskiptahafta“ hafi átt mikinn þátt í stórbættum lífskjörum Íslendinga.
Hefur einhver heyrt fréttamenn, álitsgjafa og stjórnmálamenn vitna mikið í þessi orð nefndarmanna? Sennilega fáir. En til þeirra er vitnað í fróðlegri bók Styrmis Gunnarssonar, Hrunadansi og horfnu fé, sem Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá. Því fer vitaskuld víðs fjarri að Vefþjóðviljinn og Styrmir Gunnarsson hafi verið sammála um alla hluti á síðustu árum, og í mörgum atriðum hafa þeir verið ákaflega ósammála. En það hindrar blaðið að sjálfsögðu ekki í að viðurkenna að þessi bók Styrmis er mjög þarft innlegg í þjóðmálaumræðuna, vekur athygli á aðalatriðum og leiðréttir ranghugmyndir, sem vaða uppi í þjóðfélagsumræðunni. Þeir sem vilja kynna sér hvað raunverulega stendur í rannsóknarskýrslunni, ættu að kynna sér bók Styrmis, sem er einstaklega aðgengilegt verk.
Eins og áður hefur verið sagt frá, þá bendir Styrmir í bókinni réttilega á að það sé „ekki mikill samhljómur í lýsingum rannsóknarnefndar Alþingis á þeim árangri, sem náðst hefur á Íslandi með þeirri stefnu í efnahags- og atvinnumálum, sem fylgt hefur verið, og gagnrýni ýmissa vinstrimanna þess efnis að allt, sem farið hefur á verri veg sé svonefndri nýfrjálshyggju að kenna.“ Hann segir að rannsóknarnefndin „sé þannig að því er virðist sammála þeirri grundvallarstefnu, sem hér hefur verið fylgt, gagnrýnir hún einstaka þætti í efnahagsstjórninni og þá sérstaklega frá árinu 2004.“ Vitnar Styrmir svo til nefndarinnar sem gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki skorið opinber útgjöld niður á þenslutímum.
Hvernig finnst mönnum þessi lýsing á skýrslu nefndar, sem gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki skorið opinber útgjöld niður, passa við þá mynd sem stjórnmálamenn og fréttamenn reyna að draga upp af skýrslunni í augum þeirra sem ekki hafa haft tök á að lesa hana?