Mánudagur 14. júní 2010

165. tbl. 14. árg.

Þ ingmenn Sjálfstæðisflokksins, undir forystu Sigurðar Kára Kristjánssonar, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að rannsökuð verði vinnubrögð stjórnvalda í Icesave-málinu, en vart hefur farið fram hjá mörgum að núverandi stjórnvöld hafa verið eindregnustu talsmenn Breta og Hollendinga í víðri veröld, í tilraunum þeirra til að leggja skuldir fallins banka á íslenska skattgreiðendur. Rík ástæða er til að rannsaka þetta mál, og raunar mun ríkari ástæða en til margra annarra rannsókna. enda er hér um að ræða mál sem verða eftir bankahrun, þegar menn hafa mun rýmri tíma til allra aðgerða og geta rætt málin opinskátt, sem áður var augljóslega ekki í boði.

Varla getur verið að núverandi stjórnvöld verði síður rannsóknarglöð en áður, nú þegar þau sjálf yrðu meðal rannsóknarefnanna. Ekki þarf að efast um að fjölmiðlamenn munu fylgjast vandlega með afdrifum þingsályktunartillögunnar.

ÞÞ að eru greinilega miklir málefnamenn sem ætla að taka við stjórn Reykjavíkurborgar á morgun. Eftir langar samningaviðræður tilkynntu þeir um nýjan meirihluta. Búið væri að ákveða að annar höfðinginn yrði borgarstjóri en hinn formaður borgarráðs. Þeir fáu sem spurðu um „málefnin“, nú þegar „nýju tímarnir“ yrðu runnir upp, fengu þau svör að um þau ætti eftir að ræða, en nánari upplýsingar kæmu síðar.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hefur talað fyrir samvinnu allra flokka um mikilvæg mál. Valdhafarnir nýju ákváðu að taka Sjálfstæðisflokkinn á orðinu og buðu því… feitt embætti fyrir oddvitann.

Það er hreinlega eins og embættin séu aðal málið. Það er aldeilis að „ný vinnubrögð“ hafa tekið við. Vonandi eru kjósendur ánægðir með „nýja fólkið“.