Þ ótt talsverður meirihluti Alþingis sé líklega andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu tók naumur meirihluti þingsins engu að síður þá ákvörðun að sækja um aðild að sambandinu. Ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem ræða munu um aðild við sambandið eru mjög andvígir aðild. Ekki er víst að það verði Íslendingum til álitsauka að bera upp bónorð af þessu tagi án þess að hugur fylgi máli. Það kemur því ekki á óvart að ýmsir hafa lagt að stjórnvöldum að draga þessa óvenjulegu umsókn til baka. Meðal annars er von á tillögu til þingsályktunar um það efni.
Hinn 8. til 10. júní lögðu Markaðs- og miðlarannsóknir ehf., MMR, að beiðni Andríkis tvær spurningar um þetta mál fyrir 846 einstaklinga úr hópi sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá.
Niðurstöðurnar í heild má finna hér en fyrri spurningin var svona:
Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að íslensk stjórnvöld dragi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka?
Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar. Einungis 24,3% svarenda eru frekar eða mjög andvígir því að draga umsóknina til baka. Hins vegar eru 57,6% svarenda frekar eða mjög fylgjandi því að umsóknin verði dregin til baka.
Umsókn um aðild að ríkjasambandi er ekki einfalt mál. Hún er því ekki ódýr heldur. Andríki fékk MMR einnig spyrja um hug manna til þess að fjármunum sé varið í umsóknina. Tölur um kostnað við umsókn Íslands að ESB hafa verið nefndar á bilinu 990 til 7.000 milljónir króna. Lægri talan er sú sem ríkisstjórnin heldur á lofti en hún er úr skýrslu utanríkisráðherra frá því í maí. Þrátt fyrir að aðrar og miklu hærri kostnaðartölur hafi verið nefndar var ákveðið að nota hina opinberu tölu frá ríkisstjórninni þegar spurt var um hug manna til kostnaðarins.
Við spurningunni um þetta fengust þó ekki síður afgerandi svör en hinni fyrri.
Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis, frá því í maí síðastliðnum, kemur fram að gert er ráð fyrir að beinn kostnaður vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu geti numið samtals 990 m.kr. á tímabilinu 2009-2012. Hversu vel eða illa telur þú að þeim fjármunum sé varið?
Einungis 19,9% svarenda telja 990 milljónum króna frekar eða mjög vel varið í umsókn um aðild að ESB. Á hinn bóginn telja 66,9% þessum fjármunum frekar eða mjög illa varið á þennan hátt. Nær annar hver telur að þessum fjármunum sé mjög illa varið.
Enginn stjórnmálamaður í Íslandssögunni hefur vísað oftar í „vilja þjóðarinnar“ en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Hún tjáir sig vart opinberlega án þess að vísa í „vilja þjóðarinnar“, „kröfu fólksins“, „óskir almennings“ og þar fram eftir götunum. Hvað ætlar hún þá að segja þjóðinni um þetta mál í ávarpi sínu nú á þjóðhátíðardaginn?
S em fyrr eru það stuðningsmenn Andríkis sem standa undir kostnaði við útgáfu félagsins og önnur verkefni líkt og gerð viðhorfskönnunar. Þeir sem vilja vilja ganga til liðs við þann góða hóp manna sem styrkir félagið geta gert það hér á einfaldan og öruggan hátt.