F jármálaráðherra hefur svarað fyrirspurn Sigríðar I. Ingadóttur alþingismanns um kostnað ríkissjóðs við bankahrunið, meðal annars vegna glataðra veðkrafna Seðlabanka Íslands. Sigríður sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 2007 – 2008 og hefur því eðlilega áhuga á málinu. Hún „axlaði ábyrgð“ á setu sinni bankaráðinu fyrir bankahrunið með því að gefa kost á sér til þingstarfa skömmu eftir hrunið. Sigríður bað fjármálaráðherra einnig að deila kostnaðinum niður á hvern Íslending og taka svo fjórum-sinnum-töfluna fram í ráðuneytinu til að reikna kostnaðinn á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Hagfræðimenntaður þingmaður sem setið hefur í bankaráði seðlabankans felur auðvitað fjármálaráðuneytinu að leysa stærðfræðiþrautir af þessu tagi.
Neyðarlögin svonefndu breyttu veðröð kröfuhafa í hinum föllnu bönkum. Ríkisstjórn kratanna úr Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu datt ekki annað í hug en að endurreisa viðskiptabankana með skattfé. Hluti þeirra veð- og daglána sem Seðlabankinn hafði veitt fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lögbundið hlutverk sitt sem seðlabanki, tapaðist. Samkvæmt svari fjármálaráðherra greiðir ríkissjóður inn í seðlabankann um 175 milljarða króna en engin leið er að skilja af svari ráðherrans hvaða áhrif neyðarlögin eða ákvörðun um að endurreisa bankana höfðu á þessa niðurstöðu.
Þessir 175 milljarðar eru að sjálfsögðu stóráfall fyrir ríkissjóð, ekki síst þar sem hann var rekinn með miklum halla á síðasta ári, þessu einnig og ekkert bendir til að sparað verði í rekstri ríkissjóðs á næstunni. Svo fjarstæðukennd er umræðan um fjármál ríkisins um þessar mundir að stéttarfélög ríkisstarfsmanna líta á það sem árás þegar félagsmálaráðherra býður ríkisstarfsmönnum óbreytt launakjör næstu árin. Öllum má vera ljóst að lækka þarf launakostnað hins opinbera verulega til að ná tökum á rekstri ríkisins og stöðva hina hrikalegu skuldasöfnun þess. Það væru heldur ekki margir starfsmenn á almennum markaði sem fúlsuðu við tilboði um óbreytt kjör næstu árin.
En nú þegar þetta tap vegna afskipta ríkisins af fjármálamarkaði blasir við ætla menn þá að loka fyrir þann möguleika að stórkostlegar skuldir af þessu tagi lendi á landsmönnum í framtíðinni? Nei, aldeilis ekki. Ríkið endurreisir gjaldþrota einkabanka, jafnvel þar sem ekkert var eftir til að endurreisa. Seðlabanki Íslands mun áfram veita lán af þessu tagi. Hann mun einnig safna gjaldeyrisvaraforða í pott fyrir þá sem vilja veðja gegn krónunni sem hann gefur út. Íslenska ríkið mun áfram reka seðlabanka þrátt fyrir að hvorki saga hans undanfarin 50 ár né fjármálasaga heimsins almennt gefi til kynna að það sé góð hugmynd að ríki reki slíkar stofnanir.
Og það var svo sem ekki við öðru að búast. Menn sem eru að setja upp nýjan innstæðutryggingasjóð – með auknum skuldbindingum – eftir að fyrri sjóður lenti í risagjaldþroti í erlendri mynt eru auðvitað staðráðnir í því að læra ekkert af þeim skaða sem afskipti ríkisins af fjármálamarkaði hafa valdið á undanförnum árum.
Menn munu áfram vilja blandað hagkerfi þar sem arður fjármálafyrirtækja rennur til stjórnenda og eigenda þeirra en tapið til skattgreiðenda.