Miðvikudagur 2. júní 2010

153. tbl. 14. árg.

E fsti maður Besta flokksins telur sjálfan sig eiga að verða borgarstjóra þar sem flokkur hans hafi fengið nokkur hundruð atkvæðum meira en Sjálfstæðisflokkurinn. En ef atkvæðaröð flokka er svona þýðingarmikil, hvers vegna hljóp hann þá til og byrjaði að semja við Dag B. Eggertsson og Samfylkinguna sem fékk næstum helmingi minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn? Af hverju ræður atkvæðamagn þá engu? Eru þetta hin nýju vinnubrögð sem „fólk var að kalla eftir“, svo notaður sé einn margra frasa nútímastjórnmála á Íslandi.

EE fsti maður Besta flokksins var spurður að því eftir kosningar hvers vegna hann leitaði strax til Dags og Samfylkingarinnar. Hann gaf þá skýringu að Dagur og Samfylkingin stæðu nær stefnu Besta flokksins. Hvernig má það vera? Besti flokkurinn gaf enga stefnu út, nema þá sem hann sagðist ekkert meina með. Hvernig stendur á því að skyndilega sé til stefna í öllum helstu málum og að strax liggi fyrir, hverjir séu nálægt henni og hverjir ekki? Var með öðrum orðum ekki verið að bjóða fram flokk sem skyldi sýna hinum flokkunum fingurinn, heldur venjulegan vinstriflokk í óvenjulegum felulitum? Og nei, það er ekki „það sama og hinir flokkarnir hafa alltaf gert“, svo annar frasi sé notaður. Aðrir flokkar, sem þurft hafa að semja um stjórnarmyndanir, hafa ekki náð öllu fram sem þeir hafa stefnt að í kosningum. Á því, og framgöngu forsvarsmanna Besta flokksins nú, er mikill munur.

Æ ttu Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn frekar að hefja viðræður um meirihluta en Besti flokkurinn og Samfylkingin? Besti flokkurinn hefur tvo kosti til að halda heiðarleika. Annar er að orð og gerðir hafi verið í fullri einlægni og þá geta menn ekki látið eftir á eins og einn flokkur sé fyrirfram „nær okkur í skoðunum“. Hinn möguleikinn er sá að framboðið hafi verið til að gefa kjósendum möguleika á að sýna hinum hefðbundnari stjórnmálaflokkum skilaboð um að þeir þurfi að taka sig á. En þá líta menn svo á að skilaboðin hafi komist til skila, en ekki að nú hafi frambjóðendur Besta flokksins persónulega fengið færi á að semja við þá sem þeim persónulega líst best á.

Það er staðreynd að meira en tveir af hverjum þremur borgarbúum gerðu „skilaboð“ Besta flokksins ekki að sínum. Mikill meirihluti borgarbúa kaus ekki Besta flokkinn heldur hefðbundna stjórnmálaflokka, með kostum þeirra og göllum. Það er líka staðreynd að þótt kosningabaráttan snerist að mestu leyti um Besta flokkinn voru kjósendur ekki spenntari en svo að aldrei hefur stærri hluti þeirra setið heima á kjördag. Þeir fundu bara ekki gleðina. Þessar staðreyndir geta forystumenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar alveg haft í huga þótt uppnámið sé mikið.

EEE fsti maður Besta flokksins hefur lýst því að hann hafi úthlutað sætum á framboðslista til þeirra sem hann sjálfur vildi. Ekki prófkjör, ekki persónukjör, heldur svona persónulegt kjör. Enginn fjölmiðill ræddi það, frekar en nokkuð annað sem hefði getað slegið á stemmninguna sem mynduð var. Og hinir flokkarnir þorðu ekki fyrir sitt litla líf að verja sig. En hefur nokkurn tíma nokkur maður verið nær því að geta borið hið gamalkunna orð, „flokkseigandi“?