151. tbl. 14. árg.
K osningar voru um helgina. Það kallar á Andríkispunkta.
- Það má hugsanlega ímynda sér að kosningaúrslitin minnki enn líkurnar á að efnt verði til Alþingiskosninga fyrir lok kjörtímabilsins. Að vísu voru nær engar líkur á slíkum kosningum, en hafi verið á því örlitlar líkur, þá minnkuðu þær mjög við afhroð stjórnarflokkanna, sem jafnan tala eins og þeir séu fulltrúar þjóðarinnar. En annað skiptir ekki síður máli. Eftir kosningarnar um helgina vita meira að segja Vinstrigrænir að Samfylkingin getur ekki hugsað sér Alþingiskosningar. Næst þegar Samfylkingin hótar vinstrigrænum kosningum, ef þeir svíkja ekki eitthvert kosningaloforð sitt, þá mun líklega ekki einu sinni Steingrímur J. Sigfússon trúa henni. Verst hvað Steingrímur á lítið ósvikið eftir.
- Gasprarar, sumir vandlega gaspur-merktir sem „prófessor í stjórnmálafræði“, sögðu að kosningarnar hefðu verið uppgjör kjósenda vegna „hrunsins“. Í næstu setningum fannst þeim stórmerkilegt að vinstrigrænir, sem þeir segja jafnan „saklausa af hruninu“, hefðu fengið versta útkomu allra. Ekki datt þeim hins vegar í hug að draga þá ályktun, að fæstir kjósendur hefðu í raun haft bankahrunið í huga þegar þeir greiddu atkvæði.
- Í fyrra var kosið til Alþingis. Þá stjórnuðust margir kjósendur vafalaust af skyndimynd sinni af bankahruninu og því sem þeir þá töldu ástæðu þess. Sú mynd hefur breyst verulega hjá mörgum, ekki síst hjá þeim sem sjálfir hafa lesið skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem birtir allt aðra mynd en fréttamenn og álitsgjafar héldu stíft að landsmönnum mánuðina eftir bankahrun, og sumir gera enn. Þótt álitsgjafar séu enn hugfangnir af bankahruninu og sinni eigin útgáfu af orsökum þess, þá eru færri og færri sem lifa í þeim heimi með þeim.
- En það er annað sem hefur gerst á síðustu mánuðum sem hefur eflaust haft áhrif á marga kjósendur – og hefur eflaust fyllt marga þeirra reiði í garð stóru stjórnmálaflokkanna fjögurra. Ríkisstjórnin hefur tvívegis þvingað uppgjafarsáttmála við Breta og Hollendinga, vegna Icesave, í gegnum Alþingi. Þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin og yfir 90% höfnuðu samningunum. Og hvað gerðu stjórnmálamenn þá? Ríkisstjórnin lét eins og ekkert hefði gerst og hélt áfram að reyna að gangast undir ótrúlegar kröfur Breta og Hollendinga. Það kom kannski ekki á óvart úr þeirri forstokkuðu átt. Yfirgnæfandi meirihluti landsmanna setti hnefann í borðið og stóru stjórnmálaflokkarnir gerðu mislítið með það. Í þessu dæmi hafa menn þó nokkuð til síns máls, þegar þeir gagnrýna stjórnmálaflokkana sem heild.
- Ýmislegt hefur dunið á íslenskum stjórnmálamönnum að undanförnu. Meðal þeirra sem ekki hafa andmælt miklu, eru stjórnmálaforingjar þegar stjórnmálaflokkar eru gagnrýndir. Svo virðist sem þeir hafi margir leitað til sama ímyndarráðgjafans sem hafi þulið yfir þeim að nú yrðu þeir að „sýna auðmýkt“, mótmæla engu, og helst „viðurkenna mistök“. Þegar saman hefur staðið samfelldur áróður gasprara, látlaus stóryrði bloggsins og fráleit hræðsla stjórnmálamanna við að bera hönd fyrir höfuð sér, er ekki furða þótt ýmsir sannfærist um að til sé „fjórflokkur“ sem hafi nú aldeilis gert á sig.
- Vikublaðið Monitor spurði efstu menn framboðslistanna í Reykjavík ýmissa spurninga um lífið og tilveruna. Ein var hvort þeir ferðuðust með strætisvögnum. Einar Skúlason, hinn snarpi leiðtogi reykvískra framsóknarmanna svaraði: „Það kemur fyrir, en eftir að ég hætti að drekka hefur það minnkað.“
- Í sama blaði var Jón Gnarr spurður hvort hann hefði komist í kast við lögin. Hann sagðist oft hafa verið handtekinn en sjaldnast dæmdur. Hvernig ætli fjölmiðlar hefðu brugðist við ef Dagur B. Eggertsson eða Hanna Birna Kristjánsdóttir hefðu svarað eins?
- Sumir vinstrisinnaðir álitsgjafar og baráttumenn eru mjög hneykslaðir á fáfræði múgsins sem hafi stjórnast af sefjun til að kjósa Besta flokkinn. Sömu álitsgjafar og baráttumenn munu álíta að mikil hugsun og þekking, en alls ekki múgsefjun, hafi búið að baki kosningasigri vinstrimanna í fyrra.
- Sumir heimta mjög „endurnýjun“ í íslensk stjórnmál, enda er sú krafa mjög þægileg fyrir þá sem ekki hafa neina stjórnmálahugsun til að styðjast við, kynna og verja. Vefþjóðviljinn telur að töfraorðið „endurnýjun“ sé stórlega ofmetið, en til sátta vill blaðið stinga upp á þeirri endurnýjun í íslenskum stjórnmálum að einhvern tímann verði boðið upp á kosningakvöld án Ólafs Þ. Harðarsonar.
- Og ef menn vilja ganga lengra í endurnýjun, þá mættu þeir huga að endurnýjun í hópi stjórnenda íslenskra umræðuþátta í útvarpi og sjónvarpi. Þeir sem nú stýra slíkum þáttum í útvarpi og sjónvarpi, voru þeir ekki örugglega allir ráðnir eftir auglýsingu?
- Þegar skoðanakannanir sýndu að frambjóðendur Besta flokksins gátu gert sér vonir um sæti í borgarstjórn var hlaupið til í Kópavogi og hugmyndin ljósrituð. Þar varð til Næst besti flokkurinn, settur til höfuðs valdastéttunum. Daginn eftir kosningar var nýkjörinn bæjarfulltrúi flokksins búinn að handsala að leiða ríkisstjórnarflokkana til valda í bænum. Þetta er alvöru fulltrúi óánægðs fólks.
- Það getur alveg átt rétt á sér að setja fram kaldhæðnisframboð eins og Besta flokkinn. Svara ætíð út í bláinn, segjast ýmist hafa enga stefnu eða þá stefnu sem aldrei verði staðið við, og þannig áfram. En ef menn taka þennan kost fyrir kosningar, þá verða þeir helst að halda þeirri línu. Þá setjast menn ekki í meirihluta. Menn geta ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki bæði hægt að vera villingur sem ætlar að draga fram innihaldsleysi og froðu „atvinnustjórnmálamanna“ – og setjast svo að samningaborði með Degi B. Eggertssyni daginn eftir kosningar.
- Raunar hefur Vefþjóðviljinn talsverða trú á Jóni Gnarr og telur hann hreint ekki ólíklegri en marga aðra til að geta reynst vel sem stjórnmálamaður. Margt sem Jón hefur sagt í ræðu og riti í eigin nafni undanfarin ár, hefur verið sagt af yfirvegun og skynsemi. En framboðslisti sem gengur út á að gagnrýna aðra fyrir að segja hvað sem er fyrir kosningar, án þess að meina neitt með því, til að komast í valdastöðu eftir kosningar, má helst ekki gera nákvæmlega það sama sjálfur.
- Sumir virðast halda að í framboði í Reykjavík hafi verið einhver voðalega vondur „fjórflokkur“ og svo Besti flokkurinn. Raunar voru framboðin mun fleiri. Eitt þeirra nefndist Reykjavíkurframboðið og leiddi það varaþingmaður Borgarahreyfingarinnar. Þar var þó á ferð framboð með róttæka stefnu og frambjóðendur sem töluðu eins og þeir vildu framkvæma hana. Ekki virtust kjósendur spenntir. Framboðið fékk sáralítið fylgi án þess að nokkur dragi nokkra ályktun af því.
- Hvaða máli skiptir þótt Besti flokkurinn hafi naumlega fengið fleiri atkvæði en sá sem næstur kom? Hvaðan kemur sú kenning að hinum flokkunum beri skylda til að semja við hann? Sjálfstæðisflokkurinn hefur iðulega verið stærsti flokkur landsins. Samt hafa aðrir flokkar iðulega talið sér heimilt að semja sín á milli um stjórnarmyndun. Tveir af hverjum þremur borgarbúum kusu ekki Besta flokkinn, og þeir sem kusu Besta flokkinn hafa varla gert það vegna stefnu flokksins, því hún er ekki til. Vefþjóðviljinn skilur vel ef Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki starfa með Samfylkingunni. Afleiðingar slíks samstarfs blasa við, hvar sem litið er. En þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir sagðist fyrir kosningar ekki útiloka samstarf við neinn, ætti hún ekki að gera það heldur nú.
- Um helgina lauk kosningabaráttu sem staðið hafði í nokkrar vikur án þess að nokkurn tíma heyrðist í einum einasta femínista, kynjafræðingi, háskólamanni, fréttamanni eða þáttastjórnanda, sem segði mikilvægt að kona yrði borgarstjóri. Efsti maður vinstri grænna, einn ákafasti femínisti landsins, sagðist fyrirfram útiloka samstarf við konuna sem nú er borgarstjóri. Það er mjög ánægjulegt að söngurinn um „hlut kvenna í stjórnmálum“ sé nú loksins þagnaður. Því verður ekki trúað að hann verði vakinn upp, einmitt næst þegar vinstrimenn bjóða fram konu en hægrimenn karlmann.
- Ríkið hefur haldið úti sérstakri „nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“. Hefur sú nefnd gjarnan auglýst stíft og hvatt fólk til að „veita konum brautargengi“. Ekkert heyrðist af þessu tagi nú, og er það vitaskuld hrein tilviljun.
- Það eru ekki aðeins áhyggjur af „stöðu kvenna í stjórnmálum“ sem hafa horfið á síðustu vikum. Þrátt fyrir afhroð vinstrigrænna í kosningunum hefur enginn spekingur enn haft uppi hefðbundnar þulur um að minni flokkur í ríkisstjórnarsamstarfi verði að gæta þess að verða ekki „aðeins hækja hins stærri“.
- Í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri fékk Sjálfstæðisflokkurinn rúm 13% atkvæða. Í fyrra fékk hann rúmlega 16% atkvæða í norðausturkjördæmi. Kannski menn hætti nú loksins að láta eins og Kristján Þór Júlíusson sé foringjaefni. Kristján Þór hefur jafnan verið fyrstur til að taka undir ef Sjálfstæðisflokkurinn er gagnrýndur. Það hefur skilað sér.
- Stjórnmálaskýrendur töluðu mikið um það fyrir kosningar að það sýndi veika stöðu Bjarna Benediktssonar að sérframboð sjálfstæðismanna kæmi fram í Garðabæ. Staða Bjarna reyndist ekki veikari en það að Sjálfstæðisflokkurinn fékk fimm menn af sjö, sérframboðið einn og Samfylkingin einn. Tveir næstu inn, voru líka frá Sjálfstæðisflokknum.
- Raunar voru ein ánægjulegustu tíðindi kosningakvöldsins, framganga Bjarna Benediktssonar í kosningasjónvarpinu. Hann tók ekki undir þulur stjórnendanna heldur hélt merki sínu á loft, eins og rök stóðu til. Ef Bjarni heldur þessu ágæta striki og ef fleiri forystumenn rakna úr rotinu með sama hætti, þá kemst kannski meira vit í íslenska stjórnmálaumræðu.
- Sigrún Björk Jakobsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, sagði slæmt að kjósendur hefðu ekki horft til verka meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem var næstum þurrkaður út. En getur ekki einmitt verið að kjósendur hafi horft til þeirra verka? Og ber þar hæst menningarhúsið sem verið er að reisa og mun kosta bæjarsjóð milljarða króna að byggja og samfelldar fúlgur að reka. Og getur ekki verið að hátterni eins og það sem fyrrverandi borgaryfirvöld í Reykjavík sýndu, með því að halda áfram byggingu tónlistarhallarinnar við höfnina, rétt eins og ekkert hefði gerst í landinu, hafi haft áhrif á einhverja?
- Enginn veit hvernig raðað var á lista Besta flokksins, hver velur þar forystumenn eða hvernig. Sjaldan hefur ólýðræðissinnaðri eða bakherbergjasmíðaðri framboðslisti náð árangri í íslenskum kosningum. Það finnst fréttaskýrendum til marks um lýðræðisákall kjósenda.
- Öll hreppsnefnd Ásahrepps var endurkjörin. Þar er lægsta útsvar á landinu.
- Sumir æpa á hverjum degi að „fjórflokkurinn“ beri ábyrgð á öllu því sem þeir telja hafa farið miður. En ef „fjórflokkurinn“ ber ábyrgð á því öllu saman, hvaða heiður á hann þá af öllu því sem vel hefur gengið undanfarna áratugi? Varla á hann bara það sem illa gengur?
- Fyrir kosningar voru fimm flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur. Eftir kosningar eru þar fjórir flokkar. Svona fer eftir ósigur fjórflokkakerfisins.