Í gær varð merkur atburður í sögu stjórnmálasamskipta Íslands við önnur ríki. Þá hittust og réðu ráðum sínum og annarra, tveir jöfrar. Gylfi Magnússon efnahagsráðherra Íslands hitti Olli Ren peningamálastjóra Evrópusambandsins.
Þetta er fyrsti fundur íslensks og erlends ráðamanns, þar sem leiðtogarnir tveir hafa nákvæmlega jafnmörg atkvæði á bak við sig.
Báðir sitja í stjórn sem kveðst vera sérstök brjóstvörn lýðræðsins.
O g fyrst minnst er á hinn faglega Gylfa Magnússon: Hvenær ætla fjölmiðlar að fjalla um að ekki verður betur séð en að Gylfi hafi sem ráðherra vísvitandi farið með ósannindi í opinberri yfirlýsingu? Ætli fjölmiðlar létu kjörinn stjórnmálamann komast upp með slíkt, óátalið? Ætli slík framganga kjörins stjórnmálamanns hefði kannski verið notuð sem röksemd fyrir því að betra væri að hafa „fagmenn“ en kjörna fulltrúa í stjórnmálum?
J óhanna Sigurðardóttir krafðist þess í gær að þingmenn Vinstrigrænna hættu að bera deilur sínar á torg. Forsætisráðherra gegnsæisstjórnarinnar telur með öðrum orðum að kjósendum komi það ekki við ef óeining sé innan ríkisstjórnar og þingflokka hennar.
Ríkisútvarpið hafði eftir Jóhönnu að hún sjálf hefði „lagt mikið upp úr því að ríkisstjórnin sýni styrk og samstöðu út á við“. Með öðrum orðum, forsætisráðherra opnu gegnsæisstjórnarinnar kveðst leggja mikið upp úr því að sérstök mynd sé dregin upp til að sýna „út á við“, en að halda verði leyndu „út á við“ hvað raunverulega fari fram í bakherbergjum stjórnarflokkanna.
Að sjálfsögðu sendi Ríkisútvarpið þetta út án þess að minnast einu orði á það að síðast þegar Jóhanna Sigurðardóttir birtist opinberlega þá var það til að segja fólki að stjórnarsamstarf með vinstrigrænum væri eins og að smala köttum.
Ekki minntist Ríkisútvarpið heldur á það, hvaða ráðherra það væri sem hefði gert hurðaskellinn að sérstökum útgöngumarsi sínum, enda er afar sjaldan sem fréttamönnum Ríkisútvarpsins finnst ástæða til að efast um nokkurn skapaðan hlut í máli núverandi ráðherra.
En að vísu er til eitt dæmi um að Jóhanna hafi haldið frið í samstarfi. Eftir að hún klauf Alþýðuflokkinn varð hún formaður Þjóðvaka, og er það enn. Hún er eini Íslendingurinn sem nú er formaður tveggja stjórnmálaflokka og hefur sem formaður Samfylkingarinnar enn sem komið er haldið friðinn við formann Þjóðvaka. Mun núverandi formaður Þjóðvaka vera eini forystumaður íslenskra stjórnmála sem telur sig eiga farsælt samstarf við núverandi formann Samfylkingarinnar. Það mun hins vegar breytast þegar annar hvor formaðurinn lætur af embætti.