Fimmtudagur 20. maí 2010

140. tbl. 14. árg.

Í gær var skýrt frá því að Seðlabanki Íslands fyrir hönd íslenska ríkisins losaði erlenda fagfjárfesta við 120 milljarða króna fjárfestingu í íslenskum krónum. Þetta var gert með litlu leikriti á skrifstofu evrópska seðlabankans í Lúxemborg. Erlendir aðilar virðast hvorki mega eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum né önnur íslensk verðbréf án þess að ríkisstjórnin reyni að kaupa þá út.

Það er óskiljanlegt með öllu að íslensk stjórnvöld verji fjármunum á þennan hátt. Og þau eru ekki aðeins að nota einhverja fjármuni til þess arna heldur fjármuni í erlendri mynt sem þau hafa fengið að láni til að endurreisa efnahag ríkisins. Þeir eru notaðir í björgunarleiðangur fyrir erlenda fagfjárfesta. Fjárfestarnir virðast jafnvel ekki þurfa að ómaka sig á því að bíða eftir samþykkt Alþingis, fjárveitingarvaldsins, þótt þarna sé verið að auka erlendar skuldir ríkisins gríðarlega.

Íslenskir fjölmiðlar virðast almennt hvorki skilja upp né niður í því sem þarna átti sér stað. Þeir láta það því eiga sig að fara ofan í saumana á málinu. Viðskiptablaðið reyndir þó að draga aðalatriði málsins fram í dag en inn í þau blandast vandamál vegna uppgjörs Landsbankans í Lúxemborg:

Í fyrsta lagi losnar Seðlabanki Evrópu í Lúx (ECL) við krónueignir af efnahagsreikningi sínum og fær í staðinn lán í evrum sem íslenska ríkið greiðir reglulega af. Eins og Már [Guðmundsson seðlabankastjóri] sagði í gær þá fannst stjórnendum Evrópska seðlabankans nóg um hversu há lán íslensku bankarnir höfðu fengið hjá bankanum. Þeir voru því stífir í samskiptum við íslensk stjórnvöld.

Uppgjöri á þrotabúi einkafyrirtækis er blandað saman við skuldir fleiri einkafyrirtækja við ECL. Stjórnendum ECL „þótti nóg um“ hve mjög þeir höfðu sjálfir lánað þessum fyrirtækjum. Þeir voru því stífir við íslensk stjórnvöld þar til gamall kommi úr íslenska embættismannakerfinu mætti á staðinn og tók að sér að færa skattgreiðendum á Íslandi reikninginn fyrir öllu saman. Hvorki Alþingi né almenningur fá nokkuð um málið að segja fyrr en undirritaður samningur liggur fyrir.

Hljómar kunnuglega ekki satt?

ICESAVE DE LUX?