Miðvikudagur 19. maí 2010

139. tbl. 14. árg.

E f marka má kannanir fær Besti flokkur Jóns Gnarrs hóp manna kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur í næstu viku. Eins og eðlilegt er, reyna margir að finna á því skynsamlegar skýringar. Flestir stökkva á þá sem hendi virðist liggja næst, að fólk sé svona mikið á móti stjórnmálaflokkunum.

Vefþjóðviljinn er ekki alveg viss um þá skýringu.

Jú vissulega eru margir Reykvíkingar lítt hrifnir af stjórnmálaflokkunum, sem þarf ekki að koma á óvart því ýmislegt hefur farið úrskeiðis á síðustu misserum og stjórnmálaflokkarnir sitja þar fyrir utan undir samfelldri gagnrýni, bæði hvers annars sem og ákafra álitsgjafa.

En margt fleira og annað kemur til. Mjög margir kjósendur sjá enga sérstaka ástæðu til að kjósa einn flokk fremur en annan – í borgarstjórn Reykjavíkur. Margir, sem hafa eindregnar skoðanir á landsmálum, sjá lítinn mun á hinum svokölluðu stjórnmálaflokkum í borgarstjórn, enda virðast meginskoðanir í stjórnmálum skipta marga frambjóðendur litlu. Sveitarstjórnir vítt og breitt um landið hafa undanfarin misseri fyllst af fólki með óskaplegan áhuga á sveitarstjórnarmálum. Ekki þannig að þetta fólk hafi skýrar lífsskoðanir um frelsi einstaklingsins eða hlutverk hins opinbera, heldur eru framboðslistar fullir af fólki sem vill endilega setja sig inn í tæknilegar lausnir á skólamálum eða lifir fyrir fleiri hjólastíga eða strætisvagnaleiðir. Allt þetta fólk vill að starf borgarfulltrúans sé fullt starf og líður vel á nefndarfundum.

Þessu fólki finnst það sjálft vera ákaflega faglegt.

Ekki batnaði svo ástandið þegar upp kom sú hugmynd, fyrir kosningar, að efnt yrði til „þjóðstjórnar“ í borginni, eftir kosningar. Sú hugmynd gaf skýr skilaboð í þá átt að litlu skipti hverjir yrðu kosnir, málin snerust ekki um lífsskoðanir heldur tæknilega útfærslu sem allir gætu komið að.

Við þessar aðstæður kemur „Besti flokkurinn“ fram, undir forystu viðkunnanlegs manns sem er þekktur skopfugl en hefur einnig sýnt að hann er hugsandi vera. Þannig skrifaði Jón Gnarr eftirtektarverða dagblaðspistla fyrir fáum árum, pistla sem síðar voru gefnir út á bók og vottuðu margir um mann sem í senn var frumlegur og einlægur í hugsun. Þegar menn horfa yfir mannvalið á hinum framboðslistunum, hverjum dettur þá í hug að það yrði stórslys þótt Jón Gnarr kæmist í borgarstjórn?

Og annað sem menn mega ekki gleyma: Fólk hefur gaman af að gera að gamni sínu. Mjög mörgum finnst Besti flokkurinn vera viðkunnanleg skemmtun sem engan skaða geri. Margir munu kjósa hann án þess að ætla sér að senda sérstök skilaboð með því. Fyrir fáum árum myndaðist ótrúleg hópstemmning fyrir því að kjósa „Sylvíu Nótt“ í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Virðulegustu konur máluðu sig eins og „Sylvía“ og hlógu fram á nótt að framgöngu hennar. Til hamingju Ísland, með að ég fæddist hér, söng „Sylvía“ og hliðina á henni stóð hefðbundið tónlistarfólk og „vissi ekki sitt rjúkandi ráð“, eins og gjarnan er sagt um hefðbundna frambjóðendur nú. Fáir kusu „Sylvíu“ til þess að lýsa andúð á íslenskum tónlistarheimi eða til að senda sérstök skilaboð. Þetta var bara skemmtilegt. Engum fannst nein hætta á ferðum, veröldin héldi áfram sinn gang, þótt einu sinni yrði sprellað.

Með þessu er ekki sagt að menn eigi að snúa kjörseðli sínum upp í svipað framtak. Á kjördag standa menn frammi fyrir öðrum spurningum. Ein er til dæmis sú, sem Reykvíkingar þurfa að svara, hvort menn vilji gera upp á milli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Dags B. Eggertssonar sem borgarstjóra í Reykjavík. Þeir, sem telja að slíkt val skipti engu, þeir hafa auðvitað frjálsari hendur en hinir.