Þriðjudagur 18. maí 2010

138. tbl. 14. árg.

Þ að er enn verið að halda því fram að lækkun á skatthlutföllum, til að mynda örlítil lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga um og eftir aldamótin, hafi verið „hagstjórnarmistök“. Þó náðist aldrei að lækka tekjuskattshlutfall einstaklinga niður í það sem það var þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp fyrir nær aldarfjórðungi. Og fram eftir 20. öldinni voru skattar almennt mun lægri en nú. Sennilega hafa það allt saman verið mikil hagstjórnarmistök.

Þessi gagnrýni kemur ekki síst úr herbúðum andstæðinga „nýfrjálshyggjunnar“. En margir úr þessum búðum héldu því hins vegar fram að skattar hefðu almennt hækkað. Minna má á margar yfirlýsingar Stefáns Ólafssonar prófessors um það efni en hann hefur réttilega bent á að þrátt fyrir lækkun skatthlutfalla hækkaði skattbyrði almennings. Það var vegna þess að tekjur almennings hækkuðu skarpt og skattkerfið hefur lengi verið þeim ósköpum gætt að því hærri tekjur sem menn hafa því hærra hlutfall greiða þeir í skatt. En þá skýringu gleymir Stefán jafnan að nefna.

Annað sem menn telja til mistaka á undanförnum árum, en er þó lítið rætt um í samanburði við þann glæp gegn mannkyni að lækka skatta örlítið, er hin ofboðslega útgjaldagleði hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Ríki og sveitarfélög notuðu auknar tekjur sínar á þessum árum til að efna til nýrra útgjalda sem aldrei fyrr.

Menn geta auðvitað gefið sér að með því að lækka ekki skatta hefðu tekjur færst frá almenningi til stjórnmálamanna í ríki og sveitum. Með því hefðu menn vissulega forðað þessum fjármunum frá því að vera eytt af almenningi. En hvað hefði orðið um fjármunina hjá hinu opinbera? Hefði þeim verið staflað í hlöðu til að mæta næstu óáran? Nei auðvitað ekki. Þeim hefði verið eytt án tafar.