Mánudagur 17. maí 2010

137. tbl. 14. árg.

Þ að vantar sjaldan stóryrðin af ráðherrabekkjunum. Í gær var tilkynnt að dótturfélag fyrirtækisins Magma Energy Corp., sem skráð mun vera í kauphöllinni í Toronto, hygðist kaupa meirihluta hlutabréfa í HS-Orku. Af því tilefni talaði Ríkisútvarpið við Svandísi Svavarsdóttur ráðherra, og þar vantaði ekki dramatíkina. Nú eru „sorgardagar“ og „dapurlegt“ á að horfa, enda kvaðst Svandís vera „fyrst og fremst með sorg í hjarta“. Svandís kvaðst allra helst vilja að lög væru í landinu sem bönnuðu að orkuauðlindir væru „seldar úr landi“.

Auðvitað var Svandís ekki spurð að því, hvers vegna það væri hræðilegt að erlent fyrirtæki eignaðist HS-Orku. Ætli hún óttist að hið illa útlenska fyrirtæki laumist í skjóli nætur, setji orkulindirnar í poka og fljúgi með þær til Japan og setji upp þar? Auðlindirnar verða áfram á Íslandi og um þau munu áfram gilda íslensk lög. Alþingi getur sett reglur um nýtingu þeirra, orkusölu, orkuverð og næstum hvað annað sem Alþingi sýnist. Hver er eiginlega hættan af því að HS-Orka komist í erlenda eigu?

En hugsanlega breytist löggjafarvald Alþingis á næstu árum. Nú er unnið að því hörðum höndum að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, sem yrði til þess að á Íslandi giltu ótal erlendar reglur sem Íslendingar réðu litlu sem engu um, hvernig væru. Það væri stóralvarlegt mál, öfugt við söluna á bréfum í HS-Orku. Og á Alþingi greiddi Svandís Svavarsdóttir, sem telur þjóðarsorg ríkja ef HS-Orka kemst í erlenda eigu, að sjálfsögðu atkvæði með inngöngubeiðni í Evrópusambandið. En þá var að vísu talsvert meira í húfi en fullveldi landsins. Þá var í húfi ráðherrastóll Svandísar Svavarsdóttur, og þá dugir ekkert væl.

Að sjálfsögðu spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins ekki út í þetta, frekar en annað. Hann hlífði Svandísi meira að segja við þeirri spurningu, hvers vegna hún hefði ekki lagt fram frumvarp til laga sem bönnuðu sölu orkuauðlinda til erlendra fyrirtækja, svona fyrst hún lætur eins og slíkar reglur séu það sem hún allra helst vilji.

En kannski hefur Svandís verið upptekin við brýnni mál. Það þurfti nú að banna nektardans og flengingar.