Fimmtudagur 13. maí 2010

133. tbl. 14. árg.

F orsætis- og fjármálaráðherra lýstu á dögunum miklum skoðunum sínum á gæsluvarðhaldi tveggja bankamanna. Þetta gerðu þau Jóhanna og Steingrímur áður en dómstólar luku umfjöllun sinni um réttmæti varðhaldsins. Þau höfðu ekki fremur en aðrir gasprarar, líkt og Vefþjóðviljinn rakti í gær, upplýsingar til að meta réttmæti varðhaldsins.

En þetta er ekki eina dæmið um að stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á gang réttvísinnar.

Því miður eru ýmsir þeirrar skoðunar að skrílslæti við þinghúsið haustið 2008 hafi verið eðlileg mótmæli. Þó eru til fréttamyndir af ofbeldinu gegn lögreglunni sem reyndi að verja þinghúsið. Það eru til fréttamyndir af skemmdarverkunum á húsinu. Það hafa verið sýndar myndir af  því þegar útidyr þingsins stóðu í björtu báli. Hvergi á Vesturlöndum hefðu þetta ofbeldi og skemmdarverk fengið að ganga svo langt án þess að skrílnum hefði verið sundrað með aðferðum sem eru þó vægari en hann sjálfur taldi eðlilegt að beita.

Svo virðist sem flestir talsmenn þessa ofbeldis og skemmdarverka séu félagar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ýmsir þingmenn flokksins og stjórnarmeirihlutans hafa á undanförnum vikum lýst áliti sínu á ákærum á hendur níu mönnum fyrir húsbrot og fyrir að hafa rofið friðhelgi Alþingis. Þeim þykir það vel við hæfi á meðan málið er fyrir dómi. Svo langt hefur þetta nú gengið að fram er komin þingsályktunartillaga þess efnis að Alþingi álykti „að fela skrifstofustjóra Alþingis að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur níu mótmælendum fyrir að hafa 8. desember 2008 rofið friðhelgi og fundarfrið Alþingis, sbr. 1. mgr. 100. gr. og 1. og 2. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, verði dregin til baka og einnig ákæra.“

Það er þingmaður VG sem á heiðurinn að þessari tillögu um að löggjafinn hlutist með beinum hætti til um mál sem er á leið um dómskerfið.

Gefum okkur nú að einhver verði mjög reiður Vinstri hreyfingunni – grænu ofbeldi. Hann telji sig til að mynda hafa misst vinnu sína og svo heimili og fjölskyldu vegna skattahækkana og fleiri heillaráða sem fjármálaráðherra hefur gripið til á undanförnum misserum. Hann vill ekki að Íslendingar greiði Icesave skuldir einkafyrirtækis. Það sýður á manninum.

Hann fer niður á Suðurgötu og kastar grjóti inn um glugga á skrifstofu VG. Hann er með slíka háreysti tímunum saman að menn heyra ekki eigin hugsanir. Hann ryðst inn á skrifstofuna og slasar starfsmenn sem óska þess góðfúslega að hann hafi sig á brott. Á leiðinni út ber hann eld að útidyrum hússins. Hann er svo handtekinn síðar um daginn þegar hann er aftur á leið niður á Suðurgötu með sekk sem í er allt sem gengið hefur niður af honum þann daginn.

Ætli VG myndi beita sér fyrir því að ríkissaksóknari felldi niður ákæru á hendur manninum? Hann var jú bara að mótmæla á sinn hátt, smá borgaraleg óhlýðni, aktívismi.