Laugardagur 8. maí 2010

128. tbl. 14. árg.

H ið ágæta fyrirtæki, Poulsen, fagnaði aldarafmæli sínu í dag. Fyrir ári komst fyrirtækið í fréttir og af undarlegu tilefni. Það hafði sent frá sér auglýsingabækling og vökulli baráttukonu tókst að lesa hann með rétttrúnaðargleraugum. Í bæklingnum var mynd af ungri konu í hjúkrunarkvennabúningi, sem gerði sig líklega til að hlúa að bifreið, en fyrirtækið selur varahluti í bifreiðar. Þessi saklausa mynd ærði formann félags hjúkrunarkvenna sem sagði í Morgunblaðinu  að þarna væri verið að „klámgera heila fagstétt, sem er með fjögurra ára háskólanám á bakinu“.

Eitt er nú að „klámgera“ einhvern, sem er auðvitað mjög alvarlegur glæpur og kallar á þunga refsingu, en þegar fyrir ódæðinu verða hámenntaðar stéttir, með fjögurra ára háskólanám að baki, þá er hryllingurinn orðinn nær óbærilegur. Svo það var ekki undarlegt þó formaður félags hjúkrunarkvenna hafi sent öllum félagsmönnum póst og beðið þær um að skrifa skammarbréf til Poulsen fyrir ódæðið. Einnig skrifaði formaðurinn til Íslandspósts og fordæmdi fyrirtækið fyrir að bera út slíkan óhroða um stétt með fjögurra ára háskólanám að baki.

Nú mætti auðvitað láta sér nægja að hrista höfuðið yfir þessu, en gallinn er að vitleysa eins og þessi veður uppi. Hvað halda menn til dæmis að efsti maður vinstrigrænna í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, Sóley Bjarnfreður Tómasdóttir, segði um glæpafyrirtækið Poulsen og klámbæklinga þess um hámenntaðar stéttir, ef hún legði sig niður við að lesa frá því hroðann? Hún sagði nú frá því á dögunum að hún hefði orðið fyrir mjög skrítinni reynslu, hún hefði nefnilega eignast son og það reyndist „ekkert hræðilegt við það að eiga strák eins og ég hélt fyrst“, eins og frambjóðandinn segir hiklaust í viðtalinu.

Á alþingi veður sama lið uppi. Þar er stjórnarandstaðan svo máttlaus að hún annað hvort tekur heilshugar þátt í rétttrúnaðartillögunum eða þegir úti í sal þegar forræðishyggjan rennur í gegn.

Og femínistarnir eru tíðir gestir í rauðustu allra rauðra útvarpa á Vesturlöndum, íslenska ríkisútvarpinu, en sú stofnun dælir vinstrimennsku yfir landsmenn þrjúhundruðsextíuogfjóra daga ársins.

Og háskólinn? Þar er nú rekin á kostnað Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar sérstök Rannsóknarstofa í kynjafræðum sem dælir frá sér „kynjafræðingum“ sem eru næstum því jafn miklir fræðimenn og „stjórnsýslufræðingarnir“ sem félagsvísindadeildin er farin að búa til.