E itt af því sem borið hefur til tíðinda undanfarið, er að íslenskir kratar eru byrjaðir að leiðrétta þann leiða misskilning að þeir hafi verið sérstakir aðdáendur Tonys Blairs og breska Verkamannaflokksins. Að vísu hefur Össur Skarphéðinsson árum saman stært sig af því að borga enn félagsgjöld í flokk þeirra Browns og Darlings og Björgvin G. Sigurðsson hefur lýst því látlausum orðum þegar hann gekk hús úr húsi á Bretlandseyjum sem sjálfboðaliði fyrir Verkamannaflokkinn í kosningabaráttu. Allt er það misskilningur, rétt eins og það misminni að haldin hafi verið sérstök kosningavaka á Íslandi nóttina sem Blair náði völdum, og að þar hafi innstu koppar Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, Már Guðmundsson, Mörður Árnason og fleiri kappar, verið ákafastir manna.
Það er mikið fagnaðarefni að þetta sé allt misskilningur. Hversu oft ætli álitsgjafar myndu rifja það upp með hneykslan ef íslenskir hægrimenn héldu kosningavökur og klökknuðu þar stórum yfir sigrum sínum… í öðrum löndum?
Af baksíðu DV 2. maí 1997. |
N ú eru ýmsir viti sínu fjær vegna nýjustu orða forseta Íslands. Í gær sagði hann á BBC að gosið í Eyjafjallajökli væri ekkert á við það sem koma myndi í Kötlu, fyrr eða síðar.
Það eru ekki bara „aðilar í ferðaþjónustu“ sem eru ævareiðir – en þeim er vorkunn því þeir eyddu gærdeginum í að taka niður afpantanir erlendra gesta sem ekki vildu lenda hér í hraunflóðinu. Á alþingi gagnrýndi fjármálaráðherra lýðveldisins forsetann harðlega, og að sjálfsögðu þarf ekki að hafa mörg orð um yfirvegun hefðbundinna „bloggara“.
Enginn benti á neitt rangt í máli forsetans. Menn sögðu einfaldlega að hrakspár eins og þessar væru stórskaðlegar. Enginn mælir Ólafi Ragnari bót.
Svo eru einhverjir spekingar uppfullir af því núna að menn hefðu átt, kannski árið 2007, að ræða það opinberlega að íslensku viðskiptabankarnir, sem þá skiluðu tugmilljarða hagnaði oft á ári, stefndu í þrot. Sumum þykir það alger vanræksla að hafa ekki farið um allt og boðað hrun þeirra. Mestu eftirávitarnir telja að hætta hafi átt lánaviðskiptum við þá. Hvernig ætli þeir menn, sem nú eru óðir yfir því að forsetinn segi það sama og önnur hver fréttastofa heims hefur margsagt síðustu viku, að Katla geti gosið og að það yrði mun stærra en núverandi gos, hefðu látið ef einhver hefði, löngu fyrir bankahrun, gert eitthvað af því sem allir sérfræðingarnir tala nú um?
Ef eitthvað af því hefði verið gert, að ekki sé einu sinni hugsað um hugmyndir eins og að lýsa skuldabréf bankanna opinberlega óveðtæk, þá hefðu bankarnir hrunið daginn eftir. Þá hefði ekki einu sinni verið sett á fót rannsóknarnefnd, því allir hefðu talið sig vita hvaða hálfviti hefði valdið bankahruninu.