E inhver ævintýralegasta niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hafi sýnt vanrækslu í starfi en ekki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og oddviti hennar í ríkisstjórninni.
Þetta er niðurstaða nefndarinnar þótt Ingibjörg hafi haldið Björgvini utan við meiriháttar ákvarðanir og leynt hann mikilvægum upplýsingum er vörðuðu mál sem voru á hans verksviði.
Á það ber einnig að líta að Ingibjörg valdi Björgvin í starf viðskiptaráðherra. Hún hefði svo hæglega getað sett hann í annað ráðherraembætti ef hún treysti honum ekki fyrir bankamálum. En kannski grunaði hana ekki að mjög myndi mæða á ráðherra bankamála á kjörtímabilinu sem hófst vorið 2007.
Ójú, í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í fyrradag sagði Ingibjörg Sólrún:
Ég leiddi flokkinn inn í ríkisstjórnarsamstarf sem var ekki þess umkomið að taka á fjármálakerfi sem við vissum þó að var stofnað til með pólitískri spillingu og helmingaskiptum. |
Hún var sannfærð um að fjármálakerfið væri rotið en setti mann yfir það sem hún treysti ekki fyrir helstu upplýsingum. Og sá maður er sakaður um vanrækslu en ekki hún.
Hvað er þetta eiginlega? Kynjuð stjórnsýsla?