Fimmtudagur 8. apríl 2010

98. tbl. 14. árg.

Þ að þykir sjálfsagt mörgum íbúðareigandanum lakara að allt eigið fé hans í húsinu hafi gufað upp á nokkrum misserum með lækkandi fasteignaverði og hækkandi verðtryggðum skuldum. Það er þó þekkt víða um lönd að húsnæðisverð hleypur upp og niður og menn geta jafnvel búist við því nokkrum sinnum um ævina að eiga ekkert í húsinu sínu. Þetta er ekki stórmál ef menn kunna vel við sig á staðnum. Gamanið kárnar hins vegar ef menn þurfa nauðsynlega að selja húsið og andvirði þess hrekkur ekki fyrir skuldunum sem hvíla á því.

Ekki síður nöturlegt er þegar menn sitja uppi með bíl með veðskuldum sem eru ekki aðeins margfalt virði bílsins heldur einnig með óviðráðanlegum afborgunum.

Hvernig gat það gerst að þúsundir Íslendinga tóku lán í japönskum jenum til kaupa japanskan bíl án þess að eiga nokkra möguleika á að bregðast við sveiflum á gengi hinnar erlendu myntar gagnvart íslensku krónunni?

Bílar voru fyrir margt löngu gerðir að sérstökum lúxusvarningi hér á landi. Ríkið leggur á þá há vörugjöld (30-45%) og hæsta virðisaukaskatt í heimi ofan á það. Lánsfé til bílakaupa var lengstum mjög takmarkað og við afarkostum. Það hefur því lengi verið meiriháttar ákvörðun fyrir íslenskar fjölskyldur að kaupa bíl. Fyrir ekki svo mörgum árum fóru skyndilega að bjóðast bílalán á lágum vöxtum til margra ára. Ekki þurfti annað veðrými en bílinn sjálfan. Þessu til viðbótar var gengi íslensku krónunnar hátt og innflutningur ódýrari en oftast áður. Það er því ekki að undra að margir hafi nýtt tækifærið til að endurnýja fjölskyldubílinn.

Ef ríkið hefði stillt skattheimtu sinni af bílum í hóf á undanförnum árum hefði sjálfsagt ýmislegt orðið öðruvísi.

  • Tekjur ríkisins hefðu ekki aukist jafn mikið og menn þá ekki getað látið jafn mikið eftir sér í útgjöldum. Hallinn á ríkissjóði væri því viðráðanlegri nú.
  • Almenningur hefði ekki haft jafn mikla þörf á lánum til bílakaupa. Skuldavandinn væri því minni nú.
  • Mögulegt væri að selja nýlega bíla úr landi án þess að seljendur yrðu fyrir stórtapi vegna skatta sem fást ekki endurgreiddir við útflutning.
  • Með sölu bíla úr landi hefði mátt leysa vanda margra með bílalán í erlendri mynt.

Háir skattar á bíla læsa þá í raun inni í landinu.

En eins og ríkisstjórnin hefur marglofað þá ætlar hún að finna leiðir til að koma til móts við aðþrengda bíleigendur.

Félagsmálaráðherrann sendi bíleigendum jafnvel boð um milljónaafskriftir sem hljómaði of gott til að vera satt. En fyrst eiga bíleigendur bara að greiða ríkisstjórninni örlítinn umhverfisskatt á eldsneyti, aðeins hærra bensín- og olíugjald, lítillega hærri virðisaukaskatt og svo veggjald á vissa staði. Only for you my friend.