Mánudagur 5. apríl 2010

95. tbl. 14. árg.

V íða um heim er fólki haldið nauðugu við ýmis störf, ekki síst líkamlega erfiðisvinnu. Jafnvel börn mega þola að vera pískuð áfram við vinnu gegn vilja sínum. Líklega eru fáar atvinnugreinar alveg fríar af þessum ófögnuði. Fáum dettur hins vegar í hug að banna vefnaðarvörur almennt á þeirri forsendu að börn séu bundin við spunastóla. Og þó. Hér á Íslandi var strípidans bannaður á dögunum því að það er vissulega til úti í heimi að fólk – konur nánar til tekið – sé neytt til að dansa nakið. Fólk hefur verið beitt rangindum á nektardansstöðum einhver staðar í veröldinni og það nægði til að sannfæra þingheim um að banna slíka staði hér landi. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Viðskiptaráð Íslands gerði ekki athugasemd við frumvarpið

Það er eins gott að íslenskir þingmenn fregni ekki að hvergi séu konur beitar meira ofbeldi en á heimilum og minnst af því ofbeldi komi nokkru sinni til kasta yfirvalda. Þá er hætt við að sú gróðrarstía ofbeldis gegn konum ætti skammt eftir. Og þegar betur er að gáð myndu vitringarnir á þinginu væntanlega sjá að í mörgum tilfellum enda ástarsambönd með ósköpum, ofbeldi, niðurlægingu og fjárhagslegri neyð. Þingmenn sem vilja láta taka sig alvarlega í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi hljóta að styðja frumvarp um bann við rómantískum samböndum og heimilishaldi.

Með banni við nektardansi eru þingmenn að taka sér vald sem þær ættu ekki að hafa. Einstaklingar hafa ákveðinn meðfæddan rétt. Þennan rétt geta þeir framselt ríkisvaldinu. Ríkisvaldið getur ekki tekið sér rétt umfram þann sem einstaklingarnir fela því af hinum meðfædda rétti sínum. Augljósasta dæmið um þennan meðfædda rétt er rétturinn til að taka til varna gegn ofbeldi, þjófnaði og öðrum yfirgangi. Ríkið hefur þegið þennan rétt frá einstaklingunum og nýtir hann til að reka lögreglu og refsikerfi

En á hvaða deild fæddust þeir einstaklingar sem telja sig hafa meðfæddan rétt til að banna öðrum manneskjum að koma fram naktar?

Menn hafa bara engan rétt til að banna öðrum mönnum eða refsa þeim fyrir að stunda það sem telja má lastafullt líferni. Fáir hafa orðað þetta skýrar en Lysander Spooner í ritinu Löstur er ekki glæpur sem Andríki gaf út fyrir nokkrum árum.

Markmiðið með refsingu fyrir glæpi er því ekki aðeins að öllu leyti annað en með refsingu fyrir lesti heldur í algjörri andstöðu við það. Markmið með refsingu fyrir glæpi er að tryggja öllum á sama hátt eins mikið frelsi og mögulegt er – í samræmi við jafnan rétt annarra – til að leita eigin hamingju undir leiðsögn eigin dómgreindar og með nýtingu eigin eigna. Markmiðið með refsingu fyrir lesti er hins vegar að svipta alla menn meðfæddum rétti og frelsi til þess að leita eftir hamingju að eigin hyggjuviti og með nýtingu eigin eigna. Þessi tvö markmið eru því algjörar andstæður.