S kattyfirvöld kynntu í vikunni að ógreiddur fjármagnstekjuskattur og skattur vegna afleiðuviðskipta á undanförnum árum skipti milljörðum. Raunar er þetta alltaf svona og verður áfram. Það geta liðið allt að tvö ár frá því menn hagnast á sölu hlutabréfa og þar til þeim ber að skila fjármagnstekjuskatti. Upplýsingum um hlutabréf sem voru seld í janúar 2010 skila menn á skattframtali á næsta ári (mars 2011) og svo leggja skattyfirvöld skatt á hagnaðinn í ágúst og menn eru að greiða þetta á nokkrum gjalddögum til loka ársins.
En þessir ógreiddu skattar eru í vissum skilningi gleðilegir. Þeir eru nefnilega vísbending um að prófessor Hannes H. Gissurarson hafi á réttu að standa í nýrri bók sinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör sem Bókafélagið gaf út á dögunum. Þar sýnir hann fram á með gögnum frá árunum 1991 til 2007 að lág skatthlutföll leiði ekki endilega til lágra skatttekna heldur þvert á móti. Þegar það er nú upplýst að stórar fjárhæðir hafi ekki skilað sér í ríkiskassann síðustu árin verður niðurstaða rannsóknar Hannesar og félaga hans í Háskóla Íslands enn afdráttarlausari.
Í kynningu útgefanda á bókinni segir meðal annars að þar taki dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor saman niðurstöður víðtækrar rannsóknar á sköttum og velferð. Í rannsókninni tóku þátt margir kunnir innlendir og erlendir fræðimenn, þar á meðal Edward Prescott, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Arthur Laffer, fyrrverandi hagfræðiprófessor, dr. Ragnar Árnason prófessor og Henri Lepage rithöfundur.
Hannes fjallar um fræðilegar forsendur velferðarríkisins, eins og þær birtast í verkum stjórnmálaheimspekingsins Johns Rawls, og mælingar á hagsæld og hamingju og á tengslum þeirra við atvinnufrelsi og hagvöxt. Bornar eru saman bandaríska og sænska leiðin og gerður greinarmunur á þeim og „íslensku leiðinni“, sem fylgt var hér 1991-2004 og sameinar að dómi höfundar hið besta úr hinum báðum. Rætt er um áhrif skattalækkananna á Íslandi frá 1991 til 2007 með sérstöku tilliti til hinna lægst launuðu.
Ýmis deilumál þessu tengd eru könnuð og þess freistað að skera úr þeim, svo sem hvort fjármagnstekjuskattur ívilni efnafólki, hvort skattar hafi verið hækkaðir óbeint með lækkun skattleysismarka, hvort stighækkandi tekjuskattur sé réttlátur, hvort kjör eldri borgara hafi versnað hlutfallslega og hvort tekjuskipting hafi hér orðið ójafnari 1995-2004, eins og oft er haldið fram. Rætt er um áhrif skatta á vinnufýsi og verðmætasköpun og komist að þeirri niðurstöðu, sem er ekki aðeins studd dæmum frá Íslandi, heldur líka Sviss og Írlandi, að skattstofn geti stækkað verulega við skattalækkanir, svo að skatttekjur ríkisins geta fremur aukist við þær en hitt. Hið öfuga á við um skattahækkanir: Þá vinna menn minna og skapa síður verðmæti, svo að skattstofninn minnkar. Ennfremur er sú kenning gagnrýnd, að auðlinda- og umhverfisskattar séu að einhverju leyti hagkvæmari en aðrir skattar. Að lokum er sett fram spá um langtímaáhrif fyrirhugaðra skattahækkana á Íslandi í ljósi reynslunnar.
Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör er 160 síðna kilja. Hún fæst nú í Bóksölu Andríkis og kostar kr. 1.900. Heimsending innanlands er innifalin í verði. Við sendingu til útlanda bætast kr. 600.