H vað yrði sagt ef ríkisstjórnin hefði í dag ákveðið, að allir þeir sem hefðu á síðustu árum lánað mönnum peninga, ættu á morgun að gefa sömu mönnum vissa peningaupphæð? Ætli einhverjum dytti í hug að slík fyrirmæli stæðust, og bótalaust?
E f Gunna lánar Jóni tvær milljónir króna, þá fara tvær milljónir króna úr vasa hennar og yfir í vasa Jóns. En Gunna fær eitt í staðinn, hún eignast kröfu á Jón. Sú krafa er, eins og allir sjá, eign. Hún er þannig varin af eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.
Ef að Jón kemst í vandræði og á ekki nægt lausafé til að borga Gunnu, getur hún gengið að öðrum eigum hans. Ef Jón getur ekki borgað og aðrar eigur hans hrökkva ekki til, tapar Gunna eign sinni, að hluta eða öllu leyti.
Þetta er augljóst og flestir skilja það. Með sama hætti er augljóst að ef eigur Jón hefðu dugað til greiðslu skuldarinnar við Gunnu, að öllu leyti eða að hluta, en ríkið skerst í leikinn og bannar Gunnu að sækja kröfu sína á hendur Jóni þá skerðist eign hennar, krafan á hendur Jóni, sem því nemur. Er þetta ekki nokkuð augljóst? Svonefndar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að létta á „skuldavanda heimilanna“ snúast um þetta. Ráðherrarnir eru óskaplega fínir, „stórsveit ríkisstjórnarinnar“ eins og síðdegisútvarp Rásar 2 tvíkallaði ráðherrana í gær, og mæta á blaðamannafund og segjast hafa ákveðið af rausnarskap sínum að lánveitendur fái ekki borgað nema svo og svo mikið af kröfum sínum. Þeir verði bara að þola það. Allar þessar reglur verði afturvirkar og þeir sem hafi lánað út peninga megi helst ekki innheimta þá.
Það verður aldeilis eftirsótt að lána út peninga á Íslandi í framtíðinni.
V ilhjálmur Egilsson segir að það sé „algjört grundvallaratriði“ að afnema gjaldeyrishöftin. Gengi krónunnar væri mun hærra ef þau hefðu ekki verið sett. Gjaldeyrishöftin eru annað tveggja snjallræða sem alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi að komið yrði á. Hitt var skyndileg og mikil hækkun stýrivaxta.
Hver, utan þings, var aftur ákafasti talsmaður þess að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til aðstoðar Íslendingum?