Þ að var sérstætt að sjá utanríkisráðherra Noregs og jafnvel Svíþjóðar láta sem löndin hefðu aldrei sett „lausn“ Icesave málsins sem skilyrði fyrir lánveitingu til Íslands. Það gerðu þeir kindarlegir á blaðamannafundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í gær. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra Íslands sagði við Morgunblaðið að orð norska ráðherrans „væru sem tónlist í eyrum sínum“.
Hvað ætli hafi nú gerst á síðustu dögum sem varð til þess að ráðherrarnir láta sem þeir hafi aldrei heyrt annað eins og að lán til Íslands væru tengd við Icesave?
Hvað ætli hafi sömuleiðis gerst í Downingstræti 11? Þar sem situr maður sem sagði opinberlega 8. október 2008: „Það er ótrúlegt en satt að íslensk stjórnvöld hafa sagt mér að þau hafi ekki í hyggju að standa við skuldbindingar sínar.“ Sú yfirlýsing var ein af mörgum frá breskum yfirvöldum sem löskuðu orðspor Íslands við aðstæður þar sem landið þurfti á öllu öðru að halda. Alistair Darling hefur aldrei fyrr en nú sýnt Íslendingum aðra en þessa.
Varla hefur það verið þessi „marklausa“, „tilgangslausa“, „dapurlega“, „pointless“ þjóðaratkvæðagreiðsla sem hafði þessi áhrif? Hún var víst líka „skrípaleikur“ og engin ástæða til að fara fram úr rúminu fyrir.
S vo óskar Vefþjóðviljinn sem fyrr eftir því að ríkisstjórnin skýri frá því í hvað hún ætlar að nýta öll þessi erlendu lán sem hana dreymir.