N æstu dagar geta orðið afskaplega upplýsandi. Til landsins streyma erlendir fjölmiðlar til að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-ánauðina.
Það fer ekki á milli mála ein helsta ástæða þess að stjórnvöld hér á landi voru svo gott sem búin að leiða þjóðina í þessa ánauð var fullkomin vangeta til að kynna málstað Íslendinga erlendis. Það á ekki aðeins við um núverandi ríkisstjórn þótt hún beri þar vissulega þyngsta ábyrgð. Ráðleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var einnig dapurlegt. Breskum stjórnvöldum tókst að úthrópa Íslendinga sem hrappa sem ættu sér engar málsbætur.
Eina málsvörn Íslands frá því í byrjun október 2008 hefur komið frá frjálsum félagasamtökum og einstaklingum.
Nú er hins vegar komið mikið og stórt tækifæri til að skýra málstað Íslendinga. Næstu dagar gætu því orðið mjög upplýsandi fyrir almenning erlendis, ekki síst í Bretlandi. Bresk stjórnvöld komu illa fram við Íslendinga þegar síst skyldi. Það er afar mikilvægt að almenningur í Bretlandi verði upplýstur um þau verk breskra stjórnmálamanna. Til marks um það fullkomna virðingarleysi sem sjálfur forsætisráðherra hennar hátignar sýndi Íslendingum var dæmalaus yfirlýsing hans um að bresk stjórnvöld „myndu frysta eignir íslenskra fyrirtækja hvar sem til þeirra næðist í Bretlandi.“ Það eru fá dæmi um að hópi manna, hvað þá heilli þjóð, hafi verið hótað með þessum hætti á Vesturlöndum á síðustu áratugum.
En mikilvægustu skilaboðin eru eftir sem áður þau að það sé bara alls ekki sjálfsagt að skattgreiðendur beri tap af viðskiptum einkaaðila, jafnvel þótt um banka sé að ræða.
Það eina sem getur komið í veg fyrir að þessi skilaboð berist með skýrum hætti er ríkisstjórn Íslands.