G ylfa Magnússyni dósent og viðskiptaráðherra finnst lítið til margra þingmanna koma og umræður á alþingi ekki sérstaklega merkilegar. Þetta eru víst einhverjar málfundaæfingar.
Þingmenn, með kostum sínum og göllum, hafa þó eitt sem Gylfi Magnússon hefur aldrei talið sig þurfa eða borið virðingu fyrir, svo vitað sé: lýðræðislegt umboð.
Það hnussaði í Gylfa Magnússyni í vor þegar hann var spurður hvort hann hygðist bjóða sig fram til þings. Gylfi vill ekki gefa almennum kjósendum færi á að kveða upp neinn dóm yfir störfum sínum.
En hann þiggur ráðherrabíl, ritara, skrifstofu og sæmileg laun, ef nógu fast er gengið á hann.
Hann vill ekki einu sinni segja fólki hvaða flokk hann kaus núna síðast. Hverjum kemur það við? Hann er nú bara ráðherra í ríkisstjórn.
Og fjölmiðlamenn, sem alltaf höfðu talað eins og „faglegir ráðherrar“ væru það sem helst þyrfti í stjórnmálin, sitja uppi með þann söng sinn og vilja því helst ekki benda á neitt sem slegið gæti á glansmyndina af faglegu ráðherrunum, þessum sem enginn maður hefur nokkurn tíma kosið. Eitt af því sem aldrei verður rætt er hvort viðskiptaráðherrann faglegi hafi logið vísvitandi í opinberri yfirlýsingu.