Þ að rennur nú upp fyrir sífellt fleirum að þjóðaratkvæðagreiðslan 6. mars snýst um hvort skuldir gjaldþrota einkafyrirtækis verði þjóðnýttar þegjandi og hljóðalaust. Raunar eru Bretar og Hollendingar búnir að þjóðnýta þessar skuldir upp á sitt sjálfdæmi en þeir vilja koma kostnaðinum á íslenska skattgreiðendur. Íslenskir kjósendur fá hér einstakt tækifæri til að segja hingað og ekki lengra, það er ekki hægt að bjóða almenningi upp á að greiða skatta til að mæta taprekstri einkafyrirtækja.
Það gerir þessa atkvæðagreiðslu sérlega áhugaverða hve löng hefð fyrir því á Vesturlöndum að þjóðnýta gjaldþrot fjármálafyrirtækja. Stjórnmálamenn þora ekki að láta þessi oft á tíðum stóru fyrirtæki fara á hausinn eins og hvert annað bílaverkstæði. Þá yrðu þeir sakaðir um „aðgerðaleysi“. Þeim þykir flottara að „grípa til aðgerða“, leggja fram þúsund milljarða „björgunaráætlun“, setja nokkrar nýjar reglur og lofa að þetta muni aldrei endurtaka sig.
En hvað sem fjáraustri og loforðum stjórnmálamanna líður munu menn áfram taka rangar ákvarðanir í bankarekstri. Rétt eins og önnur fyrirtæki munu bankar komast í þrot.
Það er nauðsynlegur hluti frjáls markaðar að lélegu fyrirtækin hverfi og ný komi í staðinn. Það gerist auðvitað ekki ef ríkið bjargar alltaf öllum.