Helgarsprokið 14. febrúar 2010

45. tbl. 14. árg.

U m síðustu áramót voru skattar á einstaklinga og fyrirtæki snarhækkaðir. Skattahækkanir eru það versta sem ríkisstjórn getur boðið skuldsettum heimilum og fyrirtækjum sem glíma einnig við minnkandi tekjur. Tekjuskattur einstaklingar, tekjuskattur fyrirtækja, tryggingagjald (skattur á launagreiðslur), virðisaukaskattur og sérstök gjöld á áfengi og tóbak hafa hækkað skarpt frá því vinstri stjórnin tók við fyrir ári. Litlar líkur eru til þess að heimilin saxi á skuldir sínar á meðan ríkisvaldið sækir að þeim með þessum hætti. En skattarnir voru ekki aðeins hækkaðir. Tekjuskattskerfið var flækt alveg óheyrilega með þrepaskiptingu og sérstökum reglum um millifærslu persónuaflsláttar milli hjóna.

Þessi flækja er svo sem í anda þeirrar stefnu sem vinstri flokkarnir hafa boðað. En engum dylst að Indriði H. Þorláksson aðstoðarmaður fjármálaráðherra hefur útfært flækjuna. Nú þarf að reikna tekjuskatt launamanns í fjórum skrefum og ef hann er einnig í vinnu annars staðar flækir það málið. Launamenn þurfa nú að upplýsa vinnuveitendur sína um hvaða tekjur þeir hafa annars staðar. Launamenn munu hafa mjög óljósa hugmynd hvaða skatthlutfall þeir greiða af vinnu sinni, hvað þá aukavinnu.

Indriði hefur gert mjög lítið úr þessum flækjum og þykir ekki tiltökumál að fyrirtækin kaupi forritun launakerfa fyrir mörg hundruð milljónir til að greiða úr flækjunni.

En fyrir fimm árum var stungið upp á því í skýrslu Andríkis um skattamál að launþegar fengju einfalda mynd af því hvernig tekjuskatturinn skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga. Þá hafði það viðgengist í nokkur ár að ríkið lækkaði sitt álagningarhlutfall en sveitarfélögin notuðu tækifærið til að hækka sína álagningu, útsvarið.

Þetta var mjög einfalt mál. Ein lína bættist við á launaseðlum frá þeim atvinnurekendur sem fóru að tillögunni. En einn maður kom fram í fréttum Ríkissjónvarpsins og sá mikla galla á þessari og taldi hana eiginlega ekki framkvæmanlega. Það var Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri. Um tillöguna sagði Indriði:

Það er vafalaust góður ásetningur en ég efast um að hann skili miklu og auk þess sýnist mér það vera óframkvæmanlegt nema með mjög miklum reiknikúnstum þannig að ég held að það sé nú tillaga sem menn ættu að skoða betur áður þeir hugleiði eitthvað slíkt í alvöru. Sú mynd sem að einstakur launaseðill gefur af þessu er aldrei rétt og auk þess held ég bara til þess fallin að rugla fólk.

Nei það skilar ekki miklu að mati Indriða að launamenn viti hvert skattarnir þeirra renna. Það gæti bara ruglað fólk. Þarna var maðurinn sem hefur flækt skattkerfið meira en nokkur annar að mæla gegn tillögum í skattmálum því það gæti þurft reiknikúnstir til að framkvæma þær. Það var nú reyndar fullkomin fjarstæða í þessu tilviki. Það þurfti engar reiknikúnstir til eins og þeir launagreiðendur sem fóru að tillögunni geta vitnað um. Það þarf hins vegar talsverðar reiknikúnstir til að reikna út tekjuskatt einstaklinga eftir að Indriði fór höndum um skattkerfið.

Indriði H. Þorláksson er maður sem vill ekki að fólk viti hver innheimtir skattana sem það greiðir, hann vill ekki að launamenn geti með einföldum hætti reiknað skattinn sinn út og nú er það nýjasta að Indriði segir Íslendinga vera þurfalinga greiði þeir ekki mörg hundruð milljarða í skatta vegna skulda sem þeir bera enga ábyrgð á.