H ann er búinn að hamra á því frá því hann komst í ráðherrastólinn fyrir tæpu ári að tíminn í Icesave-málinu sé að renna út. Hér verði heimsendir tefjist málið yfir hver einustu mánaðamót. Það sé ekki eftir neinu að bíða. Ætla menn sér að tefja björgunarstarfið? Allar upplýsingar sem máli skipta séu löngu komnar fram. Almenningur og þing viti allt sem máli skiptir. Málið sé löngu út rætt.
En í gær kom Steingrímur J. Sigfússon fram í gættina á stjórnarráðinu. Ríkisstjórnin hafði setið og rætt það áhyggjuefni sitt að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið kæmi ekki út fyrr en í fyrsta lagi skömmu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave-ánauðina.
Það eru sterk sjónarmið uppi um það að skýrslan þurfi að vera komin fram ef í henni eru upplýsingar sem að tengjast þessu máli þá væri afar óheppilegt að kosningin hefði farið fram rétt áður. Það eru þá upplýsingar sem almenningur ætti rétt á að hafa í höndum og persónulega finnst mér það eiginlega sjálfum að það sé alveg ótækt ef að á leiðinni eru mikilsverðar upplýsingar eða gögn sem að almenningur ætti rétt á að hafa til skoðunar áður en að kosningin fer fram. |
Sjálfur hefur hann tvisvar greitt atkvæði með Icesave-ánauðinni án þess af hafa séð skýrsluna um bankahrunið. Það eru aðeins nokkrar vikur síðan hann gerði það í síðara sinnið og þá töldu allir að ekki væru nema nokkrar vikur í útkomu skýrslunnar. Þá lá svo mikið á að forseti þingsins var látinn afþakka frekari upplýsingagjöf frá breskri lögmannsstofu sem starfaði að málinu fyrir stjórnvöld.
Úr því að Steingrímur er kominn allan hringinn í málinu hvernig væri þá að kasta mæðinni? Það liggur bara ekkert á að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og alveg fráleitt að halda hana ekki um leið og almennar sveitarstjórnarkosningar í maí. Kostnaður ríkissjóðs vegna þingkosninga á síðasta ári var um 230 milljónir króna. Þjóðaratkvæðagreiðsla kostar annað eins. Það mætti spara stórfé með því að hafa atkvæðagreiðsluna um leið og sveitarstjórnarkosningar. Fyrr hefur ríkið í raun ekki efni á því.