Ég er bjartsýnn á að já nú sjáum við fyrir endann á þessu og málið fái farsælar lyktir. Ég held að það sé ákaflega brýnt að koma þessu frá og við getum þá snúið okkur á nýju ári að öðrum og brýnum verkefnum sem bíða. Þetta ólánsmál hættir þá að þvælast fyrir okkur, taka upp orku og tíma. |
– Steingrímur J. Sigfússon um frumvarp sitt um ríkisábyrgð vegna Icesave í fréttum Ríkissjónvarpsins 28. desember 2009. |
M argir hafa furðað sig á því að hinn hugprúði hugsjónamaður Steingrímur J. Sigfússon hafi gert það að sínu helsta baráttumáli að íslenskir skattgreiðendur taki á sig hallann af viðskiptum einkafyrirtækis við erlenda sparifjáreigendur. En þegar betur er að gáð eru það ekki svo mikil ólíkindi.
Steingrímur J. Sigfússon vill að ríkið leysi vanda hvers manns, hvort sem viðkomandi æskir þess eður ei. Þessar “farsælu lyktir” á Icesave málinu eru fullkomlega í anda Steingríms. Fjármálaráðherra tekur upp veskið – úr vösum skattgreiðenda.
Það er hins vegar rangt hjá Steingrími að með Icesave-ánauðinni geti Íslendingar snúið sér að öðrum verkefnum. Það er alger afneitun að með ríkisábyrgð hætti málið að þvælast fyrir Íslendingum og taka orku og tíma. Það mun nær örugglega taka drjúgan hluta af vinnutíma allra Íslendinga að skrapa saman fyrir vöxtum og afborgunum af því láni sem Steingrímur ætlar á morgun að troða upp á þjóðina.
Þetta sést best á þeim gríðarlegu skattahækkunum sem dunið hafa á landsmönnum að undanförnu og munu skola mörgum fyrirtækjum og heimilum fyrir borð á næsta ári. Þær eru engin tilviljun heldur bein afleiðing af þeirri stefnu undanfarinna ára að auka ríkisútgjöldin stjórnlaust, spara hvergi þótt að kreppi og taka bara lán fyrir því sem upp á vantar.
A ndríki birtir í dag opnuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem vakin er athygli á því hve eindregin andstaða virðist vera meðal þorra landsmanna við Icesave-ánauð vinstri flokkanna. Eins og annað starf Andríkis er auglýsingin greidd með frjálsum framlögum lesenda Vefþjóðviljans. Það að lítið mál að ganga til liðs við þann góða hóp en það hefur mikið að segja fyrir félagið.