The DSB Bank failure was described by the Dutch government as being unconnected with the global financial crisis. However, it dealt a further blow to the Dutch finance sector which was hit hard by the credit crunch. The crisis resulted in the nationalization of former financial giant Fortis and in multi-billion-euro state aid packages for ING Groep NV and insurer Aegon NV. |
– Úr frétt The Wall Street Journal 20. október 2009 um gjaldþrot hins hollenska DSB Bank NV. |
U ndanfarið ár hefur fyrsta hreina vinstristjórnin alið á þeirri trú að Íslendingar hafi komið sér alls staðar út úr húsi, Íslendingurinn sé persona non grata í viðskiptum um heim allan. Að hluta er þetta sama samfylkingarliðið og tók fyrir rúmu ári hraustlega undir í söngnum um yfirburði landans í viðskiptum. „Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra – í fyrra! Nú segir sami Björgvin að íslenska ríkið verði að ábyrgjast skuldir einkafyrirtækis svo Íslendingar verði ekki að heimsviðundri.
Það er út af fyrir sig galin hugmynd að heimurinn sé svo upptekinn af Íslandi að hann komi sér saman um eina hugmynd um viðskiptasiðferði Íslendinga. Að minnsta kosti virðast þeir ekki hafa verið mjög uppteknir af Íslandi lögmennirnir sem sendu þrotabúi Glitnis póst til Írlands – og áttu þeir þó mikilla hagsmuna að gæta. Það er jafnframt fráleitt að þeir sem hafa átt í farsælum viðskiptum við Ísland um áratugaskeið skipti um skoðun við það að nokkrir bankar verði gjaldþrota. Það þekkja allar þjóðir gjaldþrot banka af eigin raun. Aðalviðskiptafréttin í Hollandi í haust er til að mynda hvorki Icesave né óheiðarleiki Íslendinga heldur gjaldþrot DSB Bank NV og áhlaupið sem gert var á bankann skömmu áður. Hollenska ríkið var þá þegar búið að þjóðnýta og ausa fé í önnur þarlend fjármálafyrirtæki og hafði ekki lyst á meiru í bili. Þeir innistæðueigendur sem áttu meira en 100 þúsund evrur í DSB munu tapa einhverju af fé sínu en óvíst er hve mikið fæst upp í kröfur á bankann.
Það er sama sagan um allan hinn vestræna heim, Evrópu og Bandaríkin. Hvarvetna hafa fjármálamenn bitið á öngulinn með ódýra fjármagninu úr stærstu seðlabönkum heimsins.
Að halda að einhver sé með hugann við Ísland í þessu alþjóðlega fjármálahruni er hreinn barnaskapur, sprottinn af sama meiði og gorgeirinn yfir hinni svonefndu útrás bankanna.
Krafa Breta og Hollendinga um að íslenskir skattgreiðendur taki á sig skelfilegar byrðar vegna viðskipta einkafyrirtækis er í raun fyrsta alvöru stappið sem íslenska ríkið stendur í við önnur ríki í um þrjá áratugi. Þótt málið sé stórt á íslenskan mælikvarða er það smámál fyrir ríki eins og Bretland og Holland sem hafa troðið illsakir við ríki og þjóðir um heim allan um aldir. Þessi ríki er öllu vön í þeim efnum og vita mæta vel að deilur að þessu tagi tekur oft mörg ár eða áratugi að leysa.
Þess vegna er það svo grátlegt að ríkisstjórn Ísland skuli lyppast svona niður á fyrstu samningafundum um málið. Það liggur bara ekkert á.