Hæstvirtur forseti. Það er akkúrat hér (Gripið fram í: „Það hefur ekkert breyst.“) sem gerður verður greinarmunur á frjálsu hagkerfi annars vegar og ábyrgu hagkerfi hins vegar. (Gripið fram í: „endalokin“.) Spurningin er nefnilega sú og hún er ansi ágeng, og ágengari en margur þorir að horfast í augu við: Fer þetta tvennt saman? Getur frjálst hagkerfi verið ábyrgt? Er frelsið sterkara og frekara en ábyrgðin þegar þriðja breytan, blessuð mannskepnan, blandar sér í þessi hugtök? Það er nefnilega svo og nákvæmlega hér sem sjálft grundvallaratriði mannlegra samskipta hverfist um takmörk frelsisins. Þegar upp er staðið, frú forseti, snýst Icesave-málið um mannasiði. (Gripið fram í: „Börnin okkar.“) – Sem við skulum kenna mannasiði. |
– Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ræðir aðalatriði Icesave-málsins, með hjálp annarra þingmanna, 20. ágúst 2009. |
Þ au hafa verið haldlítil, flest rökin sem stjórnarliðar koma með fyrir því að samþykkja Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar. Sumir þingmennirnir hafa því, jafnvel í atkvæðaskýringum, beitt frösum um að Íslendingar eigi að „standa við skuldbindingar sínar“ og vera „þjóð meðal þjóða“ , þó engum hafi enn tekist að benda á þessa skuldbindingu sem stjórnarþingmenn og sumir fréttamenn láta þó eins og sé til. Sennilega eru „Icesave-skuldbindingarnar“ einhvers staðar í baði með Lagarfljótsorminum, því jafnmargir munu hafa séð báða aðila með eigin augum, þó mikill munur verði víst á því hversu dýr þessi umtöluðu fyrirbrigði muni reynast þjóðinni.
Sigmundur Ernir Rúnarsson talar þó ekki um að standa við skuldbindingar, sem enginn hefur séð. Hann vill hins vegar leggja allt að þúsund milljörðum á borna sem óborna landsmenn, vegna þess að Icesave-málið snúist um mannasiði. Meira að segja „börnunum okkar“ á að „kenna mannasiði“ með því að leyfa þeim og börnum þeirra að borga þær skuldir, sem ekki hvíla á íslenska ríkinu og íslenskum skattgreiðendum koma ekkert við.
En svo það sé ítrekað: „Icesave-skuld íslenska ríkisins“ er nákvæmlega núll. „Icesave-skuldbindingarnar“ eru nákvæmlega engar. Þessu hyggst ríkisstjórnin og flestir þingmenn hennar breyta og hugsanlega tekst þeim það. En þangað til það tekst, þá er Icesave-skuldin núll og Icesave-skuldbindingarnar engar.
Það þarf ekki að koma á óvart þó tæplega þrjátíu og fimm þúsund manns, innan sem utan Ríkisútvarpsins, hafi nú þegar hvatt forseta Íslands til að þess að neita að staðfesta yfirvofandi lög um Icesave-ánauðina.