Helgarsprokið 20. desember 2009

354. tbl. 13. árg.

L íkt og í svo mörgum öðrum löndum sem fengu sjálfstæði frá evrópskum nýlenduherrum á síðustu öld varð lýðræði skammvinnt í Búrma. Einungis 18 árum eftir að Aung San leiddi þjóð sína til sjálfstæðis frá Bretum, á meðan síðari heimsstyrjöldinni stóð, hafði herinn rænt völdum. Skömmu síðar voru aðrir stjórnmálaflokkar en Flokkur hinnar sósíalísku áætlunar í Búrma bannaðir. Sjálfur var Aung San myrtur á upphafsárum lýðræðisins þegar dóttir hans Aung San Suu Kyi var að slíta barnsskónum. Undanfarna tvo áratugi hefur dóttirin leitt baráttuna fyrir lýðræði og gegn herforingjastjórninni í Búrma. Til þess hefur hún þurft að fórna frelsinu og samskiptum við fjölskyldu, eiginmann og syni sína frá unglingsárum þeirra.

Suu hafði snúið heim til Búrma vorið 1988,eftir háskólanám á Indlandi og Englandi og störf í Bandaríkjunum, til að hjúkra móður sinni. Fljótlega eftir heimkomuna varð hún sameiningartákn stjórnarandstöðunnar. Mótmæli gegn hinni illa þokkuðu herforingjastjórn höfðu þá farið vaxandi um hríð þrátt fyrir að stjórnin hikaði ekki við að beita grófasta ofbeldi gegn mótmælendum og hefði drepið þúsundir þeirra. Frá því snemma árs 1990 hefur Suu verið með hléum í stofufangelsi á heimili sínu í Rangoon. Mestan hluta vistarinnar hefur hún mátt þola nær algjöra einangrun, herforingjastjórnin hefur birt persónuleg bréf eiginmanns hennar í fjölmiðlum og þegar ljóst var árið 1999 að eiginmaður hennar ætti aðeins örfáar vikur ólifaðar vegna krabbameins meinuðu herforingjarnir honum að heimsækja konu sína í þeirri von að Suu myndi yfirgefa landið til að hitta hann.

Fyrir skömmu kom út bókin Aung San suu Kyi og baráttan fyrir lýðræði í Búrma eftir Jakob F. Ásgeirsson. Þar segir frá Suu og um leið þróun mála í Búrma frá því landið fékk sjálfstæði. Suu var gift breskum háskólamanni dr. Michael Aris og átti með honum heimili í Oxford. Sumarið 1990 var Jakob ásamt fjórum öðrum stúdentum við Oxford að leita að húsnæði til leigu og var vísað á heimili þeirra hjóna. Þar hittu þau eiginmanninn fyrir sem hafði fengið boð um að gerast gistiprófessor við Harvard.

Hann sagði okkur að eiginkona sín væri fangi herforingjastjórnarinnar í Búrma en hefði samt nýlega unnið glæsilegan sigur í frjálsum kosningum. Synir þeirra tveir væru á heimavistarskóla.
Við fluttum inn í lok ágúst 1990. Það var augsýnilegt að dr. Aris tók það nærri sér að yfirgefa hús sitt. Það var leigt með öllu innbúi, nánast eins og eiginkona hans skildi við þegar örlögin gripu í taumana vorið 1988. Þau tvö ár sem við bjuggum í húsinu stóðu stígvél þeirra hjóna óhreyfð við útidyrnar – hennar gul, hans blá. Michael bað okkur um að leyfa þeim að vera þar sem táknrænni von um að einhvern tíma rynni upp sá dagur að heimilislífið færðist í eðlilegt horf á ný.

Michael dvaldist í risi hússins þegar hann var í Oxford og Jakob kynntist honum og baráttu eiginkonu hans því frá fyrstu hendi. Upp frá því hefur Jakob sýnt málstað Suu og lýðræðishreyfingarinnar í Búrma þá ræktarsemi sem hans er von og vísa. Hann hefur skrifað fjölda blaðagreina um ástandið í Búrma og skipulagt heimsókn forsætisráðherra útlagastjórnar lýðræðishreyfingarinnar hingað til lands. Bókin er afskaplega gott framhald á þessari mikilvægu kynningu Jakobs á skelfingunni í Búrma fyrir Íslendingum.

Þrátt fyrir að hafa murkað lífið út þúsundum manna og fangelsað, pyntað, nauðgað og misþyrmt enn fleiri á pólitískum forsendum ákvað herforingjastjórnin í Búrma að halda kosninga vorið 1990 og bjóða sjálfa sig fram. Og það þarf vart að taka það fram að hún hafði ekki aðeins misboðið fólkinu á allan hátt. Búrma er frjósamt land og auðugt frá náttúrunnar hendi en ríkisstjórnin hefur farið ránshendi um auðlindir þess eins og hina miklu tekkskóga, fiskimið og olíulindir. Þrátt fyrir – eða öllu heldur vegna – rányrkjunnar líða landsmenn skort og landið er eitt hið fátækasta í veröldinni.

Hvernig gæti staðið á því að illa þokkuð herforingjastjórn efnir til, miðað við allt og allt, heiðarlegra kosninga þar sem helstu frambjóðendur eru fulltrúar hennar sjálfrar og svo flokkur stjórnarandstæðinga á vegum dóttur þjóðhetju landsins? Jú kosningarnar fóru fram 27. maí. Og líkt og blasir væntanlega við hverjum manni er þversumma 27 hvorki meira né minna en 9, tvær níur eru í ártalinu 1990 og þegar þar við bætist að 27. maí er í fjórðu viku fimmta mánaðar (4+5) verður vart spurt að leikslokum. Stjórnarandstaða í Búrma fékk hins vegar 82% atkvæða í þessum kosningum. Herforingjastjórnin treysti á að talan 9 gerði gæfumuninn. Það er nefnilega spurning hvað kemur á undan; sú brjálæðislega hugmynd manna að þeir geti tekið sér allt vald til að stjórna lífi annars fólk eða brjálsemin sjálf. Bæði seðlaútgáfa og staðsetning á nýrri höfuðborg Búrma eru sagðar hafa lotið talna- og stjörnuspeki.

Herforingjarnir virtu ekki úrslit kosninganna og eins og lesa má í bókinni hafa þeir haldið uppteknum hætti undanfarna tvo áratugi. Búrma er einræðisríki af verstu sort.

Ein þeirra áleitnu spurninga sem Jakob veltir upp í bók sinni er hvort réttlætanlegt sé að efna til viðskipta við ríki á borð við Búrma þar sem ágóði rennur í vasa einræðisherra. Vesturlönd hafa reynt að beita herforingjastjórnina viðskiptaþvingunum með það að markmiði að hún viðurkenni úrslit þingkosninganna frá 1990 og afsali sér völdum. Kínverjar hafa hins vegar spillt fyrir mögulegum árangri af þessu með því að eiga mikil viðskipti við herforingjana. Og hvort sem viðskiptaþvinganir eru til staðar eður ei munu áfram streyma fíkniefni í stórum stíl frá landinu sem er talið ein helsta uppspretta þeirra og þar með gróðalind fyrir herforingjana. Jakob er augljóslega andvígur því að menn skipti við einræðisríki og Íslendingar sem reyndu fyrir sér með viðskipti í Búrma árið 1990 fá eina blaðsíðu undir afrek sín í þeim efnum. Það er óvíst að síðan sé ætluð þeim til heiðurs. En líkt og dæmin sanna eru einræðisherrar þeir síðustu sem finna fyrir viðskiptaþvingunum. Er ekki Írak Saddams ekki besta dæmið þar um? Sturlaður einræðisherra hélt völdum í á annan áratug eftir að hafa verið gjörsigraður í Persaflóastríðinu og haldið í herkví alþjóðlegs viðskiptabanns allar götur síðan. Hann lifði sjálfur í vellystingum á meðan mörg hundruð þúsund landa hans létust vegna skorts á lyfjum og nauðþurftum. Það þurfti á endanum að ráðast inn í landið til að koma honum frá völdum. Annað „gott“ dæmi er Kúba. Væru McDonalds og Mikki mús ekki löngu búnir að koma Castró frá völdum ef bandarísk stjórnvöld hefðu sleppt þeim lausum á landið?

Bókina um Suu prýða margar myndir. Þar er einnig að finna ritgerð Suu, Frelsi frá ótta og tímatal helstu viðburða í Búrma frá 1945. Bókin fæst nú í Bóksölu Andríkis á kr. 3.900 og er heimsending innanlands innifalin í því verði. Við sendingar til útlanda leggjast kr. 600.