Laugardagur 19. desember 2009

353. tbl. 13. árg.

Í Morgunblaðinu í dag er birt afskaplega lýsandi graf sem sýnir tekjuskatt einstaklinga.

Í fyrsta lagi sýnir það að áður en núverandi ríkisstjórn fór að krukka í tekjuskatti einstaklinga greiddi fólk með háar tekjur ekki aðeins miklu hærri tekjuskatt í krónum talið heldur einnig miklu hærra hlutfall tekna sinna. Vegna persónuafsláttar eru skattþrepin í raun óendanleg mörg. Menn með 250.000 og 250.001 krónu í laun greiða ekki nákvæmlega sama hlutfall í skatt. Þetta kerfi er hins vegar fremur einfalt. Til að reikna skatt af launum eru laun margfölduð með skattprósentunni og persónuafsláttur svo dreginn frá.

Í því þrepaskipta kerfi sem norræna velferðarstjórnin ætlar að leiða í lög fyrir áramótin mun fyrst þurfa að skipta launum í allt að fjóra hluta eftir því hve há þau eru. Og svo reikna skattinn af hverjum hluta fyrir sig. Þegar viðmiðunarfjárhæðum, persónuafslætti og skatthlutföllum verður breytt  þarf að breyta að minnsta kosti sjö þáttum í launaforritum. Í stað tveggja þátta áður.

Í öðru lagi sýnir grafið að munurinn á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti einstaklinga var í mörgum tilfellum ekki svo mikill. Lengst af undanfarin ár greiddu menn fyrst 18% tekjuskatt og svo 10% fjármagnstekjuskatt af þeim arði sem eftir stóð til að ná í fjármagnstekjur úr fyrirtækjum. Þetta jafngilti ríflega 26% tekjuskatti. Allir launamenn með innan við 500 þúsund króna tekjur greiddu lægri tekjuskatt en 26%. En hvað með fjármagnstekjur af sparifé? Var skatturinn þar ekki bara 10%? Jú en það var af bæði vöxtum og verðbótum. Raunskattlagning er því miklu hærri í mikilli verðbólgu þegar skattstofninn var að mestu leyti verðbætur. Og þegar raunávöxtun hefur verið neikvæð hafa menn einnig greitt fjármagnstekjuskatt. Fjármagnstekjuskatturinn var með öðrum orðum einnig greiddur af tapi. Það tap var ekki frádráttarbært.

En það sem grafinu í Morgunblaðinu er fyrst og fremst ætlað að sýna er að ná má markmiðum ríkisstjórnarinnar um skattheimtu með því að hækka tekjuskattsprósentuna upp í 43% og persónuafsláttinn upp í 65 þúsund krónur. Norræna velferðarstjórnin hefur þegar bakkað með þær tillögur Indriða H. Þorlákssonar að flækja virðisaukaskattskerfið þannig að það skipti máli hvort heitur matur sé seldur yfir borð eða á borð. Þess í stað ætlar hún að láta duga að slá heimsmetið í virðisaukaskatti. Nú er bara að sjá hvort hún lætur Indriða narra sig til að flækja einfalt tekjuskattskerfið. En þetta eru kannski smámál hjá því þegar samningamaðurinn Indriði sannfærði Steingrím J. Sigfússon um að það væri „glæsileg niðurstaða“ að ríkissjóður Íslands tæki á sig allan 700 milljarða króna hallann af viðskiptaævintýrum einkafyrirtækis í útlöndum.