R íkisfjölmiðlarnir eru óþreytandi að spyrja Gunnar Helga Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor álits á gangi þjóðmála, enda vita allir í Efstaleiti að stjórnmálafræðiprófessorar eru allir hlutlausir fræðimenn, nema Hannes. Jafnvel framganga eins og þegar Gunnar Helgi lét sig ekki muna um það í sumar að uppnefna menn „skrímsladeild“, þegar reynt var að ráðast gegn þeim sem börðust gegn uppgjöf í Icesave-málinu, dregur ekki úr sókninni í álit prófessorsins.
Í fyrradag ræddi Spegill Ríkisútvarpsins við Gunnar Helga í tilefni af því að annarri umræðu um nýju Icesave-ánauðina lauk á alþingi þá fyrr um daginn. Stjórnmálafræðiprófessorinn var lítt hrifinn af hinni löngu umræðu sem haldin hafði verið:
Ég held að í engu lýðræðisríki þá teljist það sjálfgefið að minnihluti þingsins eigi að geta stoppað meirihlutann í því að komast að lýðræðislegri niðurstöðu sem er jú auðvitað það að meirihlutinn ráði. |
Nú geta menn auðvitað deilt um það hvaða rétt minnihluti þingmanna á að hafa til að ræða þau mál lengi sem hann vill. Slíkar deilur gætu meira að segja orðið efni í gott málþóf. Í því yrði vafalaust nefnt að í sjálfri öldungadeild Bandaríkjaþings geta þingmenn talað eins lengi og þeir vilja um þau mál sem fyrir liggja. Meirihluti þingmanna getur að vísu stöðvað umræðuna en til þess þarf 60 atkvæði af 100 í deildinni. Þannig getur 41 þingmaður í lýðræðisríkinu Bandaríkjunum stöðvað þau þingmál sem hinir 59 vilja samþykkja. Þetta vita þeir sem ekki hlusta á Spegilinn sér til óbóta.
Í dag birti Viðskiptablaðið niðurstöður skoðanakannana, þess efnis að um 70% landsmanna vildu að forseti Íslands synjaði yfirvofandi Icesaveánauðar-lögum staðfestingar og að rúmlega 61% landsmanna teldi hina nýju fyrirvara alþingis verri en þá sem samþykktir voru í sumar. Þetta er fyrsta skoðanakönnunin sem birtist um heitasta pólitíska deilumál síðustu vikna og mánaða. Ríkissjónvarpið frétti auðvitað ekki af könnuninni í aðalfréttatíma sínum í kvöld, enda þurfti þar að koma fyrir mörgu brýnu efni: Tímaritið Nýtt líf velur Jóhönnu Sigurðardóttur konu ársins, ungir menn á Ísafirði reyna að borða kílógramm af kjöti á 90 mínútum og útflutningur hrossa gengur vel.