Föstudagur 4. desember 2009

338. tbl. 13. árg.

Þ órunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, fór mikinn á alþingi í gær. Stjórnarandstaðan ætlar að tala Ísland niður í ruslflokk, spangólaði hún yfir þingheim og fréttamenn Ríkisútvarpsins margendurspiluðu snilldina. Núna eru það nefnilega starfsmenn matsfyrirtækja sem Íslendingar eiga að heilla, með því að samþykkja Icesave-ánauðarfrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin heldur áfram að fullyrða um að í vændum séu mikil erlend viðbrögð, ef þingmenn bara láta undan og samþykkja nýjasta gæluverkefnið. Ef ekki væri fyrir öfluga skjaldborg sem fréttamenn hafa slegið um ríkisstjórnina, þá væru svo margir búnir að fá sig fullsadda af vaðlinum að jafnvel ráðherrarnir væru hættir að reyna þetta.

  • Það átti nú aldeilis að skipta máli um „traust Íslands erlendis“ að ríkisstjórnin fengi að reka seðlabankastjóra sem ráðherrar og ýmsir í kringum þá hötuðust við, krónan myndi styrkjast og vextir að lækka og hlýnun jarðar stöðvast. Ekkert gekk eftir og enginn fréttamaður rifjar neitt upp.
     
  • Ráðherrar fullyrtu hvað eftir annað, að ekki þyrfti annað en að alþingi ákvæði að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu og þá myndi allt þetta gerast. Ekkert gekk eftir og enginn fréttamaður rifjar neitt upp.
     
  • Næst átti þetta að gerast þegar umsóknin yrði formlega afhent. Ekkert gerðist þá.
     
  • Svo átti allt að fara í gang þegar samið yrði um Icesave-ánauðina. Samningar tókust en ekkert gerðist. Þá var því haldið fram að ljúka yrði Icesave-málinu því annars yrði efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekki endurskoðuð og engin lán fengjust. Meira að segja það reyndist ósatt, efnahagsáætlunin var endurskoðuð og lánin eru tilbúin.

Icesave-málinu er hins vegar svo rækilega ólokið að fundir standa allar nætur þar til Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki meiru og gefst upp fyrir sína hönd og annarra stjórnarandstæðinga.

Og nú koma sömu menn og halda áfram að boða eitthvað utan úr heimi, ef það verði bara látið að vilja þeirra í eitt skiptið enn. Og nú eru það starfsmenn matsfyrirtækja sem verða svo hrifnir ef Ísland tekur á sig þúsund milljarða skuldbindingu í erlendri mynt, án þess að hafa til þess nokkra skyldu. Ef marka má kenningarnar virðast starfsmenn matsfyrirtækjanna telja að lánshæfi landsins aukist ef þúsund milljarðar bætast skyndilega við skuldir þess.

Hvers kyns matsmenn ætli það séu eiginlega sem trúi slíku? Ætli það séu sömu matsmennirnir og síðasta haust töldu stöðu íslensku bankanna sterka? Þar vantaði heldur ekki skuldirnar.

Hvernig væri að Þórunn Sveinbjarnardóttir hætti að gapa yfir þingmönnum nýjustu hótanir ráðherraparsins Jóhönnu og Steingríms, og sneri sér fremur að einhverju sem hún gat sér orð fyrir sem ráðherra? Svo sem björgun ísbjarna.