R íkisstjórnin og fréttastofa Ríkisútvarpsins berjast nú fyrir því að umræðum um Icesave-ánauðina verði hætt og andstæðingar hennar gefist upp. Þess vegna er nú hamrað á því í fréttum hversu lengi hafi verið talað, en ekki hvað sé sagt, hversu margar ræður hver hafi haldið, en ekki um hvað.
Fréttamenn hafa þó ekki mikinn áhuga á samanburði, sem þó gæti verið gagnlegur fyrir áheyrendur, til að meta hvort umræðan sé orðin lengri en búast megi við, miðað við mikilvægi málsins.
Enn hefur umræðan um Icesave-ánauðina, óafturkræfa þúsundmilljarða skuldbindingu til erlendra ríkja, verið rædd helmingi skemur en þáverandi stjórnarandstaða þurfti fyrir skömmu til að ræða hið afturkallanlega og fremur sakleysislega frumvarp um að breyta Ríkisútvarpinu úr hefðbundinni stofnun í opinbert hlutafélag. Þegar slíkt mál þarf að ræða í meira en eitthundraðogtuttugu klukkustundir, hversu lengi halda menn þá að taki að ræða Icesave-ánauðina?
Annað er það sem stjórnarþingmenn nefna ekki og fréttamenn annað hvort vilja ekki nefna eða skilja ekki. Reglum um ræðutíma þingmanna hefur verið breytt, svo að afnuminn hefur verið réttur þeirra til ótakmarkaðs ræðutíma, en í staðinn verða þeir nú að gera sér að góðu að kveðja sér oftar hljóðs og tala þá í fimm mínútur í senn. Þurfa þingmenn þá augljóslega mun fleiri ræður til að segja það sem áður hefði komist fyrir í einni ræðu.
Hvert skyldi nú vera metið í ræðulengd? Það var sett í umræðum um stjórnarfrumvarp um húsnæðismál fyrir rúmum áratug, en þá hélt einn þingmaður ræðu sem tók meira en tíu klukkustundir í flutningi. Sá þingmaður sem árið 1998 gat einn og sér talað í tíu klukkustundir og átta mínútur þyrfti nú eitthundraðtuttuguogtvær fimm-mínútnaræður til að koma öllu ræðuefninu frá sér.
Og þegar einn stjórnarandstöðuþingmaður sá ekkert athugavert við að tala í rúmar tíu klukkustundir um frumvarp um húsnæðismál, hvernig geta menn þá búist við að tuttuguogníu stjórnarandstöðuþingmenn geti rætt þúsundmilljarðaskuldbindingu til erlendra ríkja á nokkrum kvöldum?
Já og hvaða þingmaður ætli hafi ekkert séð að því að tala í á elleftu klukkustund um frumvarp um húsnæðismál? Hún heitir Jóhanna Sigurðardóttir. Sami þingmaður mun nú telja rétt að skammta hverjum þingmanni aðeins nokkrar mínútur hverjum til að ræða hvort íslenska ríkið eigi, án þess að vera skyldugt til, að skuldbinda kynslóðir Íslendinga til að borga breska og hollenska ríkinu þá fjárhæð, sem þau ríki eru búin að borga breskum og hollenskum sparifjáreigendum, sem tóku þá áhættu að leggja inn á netreikninga lítt þekktra banka í von um hæstu ávöxtun.