Sjálfstæðismenn fengu fleiri atkvæði en ég. Samt voru þeir kosnir frá völdum, en ekki ég. Ég á að stjórna, þeir mega ekki tala. |
H ann sparar sjaldan stóru orðin, Steingrímur J. Sigfússon. Og það er kannski óhætt þeim sem getur treyst því að fjölmiðlar sýni sér lítið aðhald. Í viðtali við Ríkissjónvarpið í fyrrakvöld krafðist Steingrímur þess að stjórnarandstaðan hætti að tala um Icesave-frumvarpið hans. Þeirri kröfu til stuðnings sagði hann alvarlegur í bragði, að Sjálfstæðisflokkurinn yrði að gera sér grein fyrir því að „sá flokkur“ hefði síðastliðið vor verið „kosinn frá völdum“, og þjóðin hefði falið öðrum umboð til að stjórna.
Hér hefði einhver fréttamaður gripið tækifærið og bent Steingrími á það að Sjálfstæðisflokkurinn, sem Steingrímur segir hafa verið „kosinn frá völdum“, fékk í vor fleiri atkvæði og fleiri þingmenn en Vinstrigrænir, sem þó telja sig hafa fengið slíkt umboð til að stýra landinu, að aðrir eigi bara að þegja.
En Ragnhildur Thorlacius sá ekki ástæðu til að nefna það.
Ó lafur Oddsson kennari skrifaði grein í Morgunblaðið í gær um yfirvofandi atkvæðagreiðslu á alþingi um Icesave-ánauðina. Minntist hann meðal annars á hina ógleymanlegu atkvæðagreiðslu síðasta sumars, þegar naumur meirihluti alþingismanna samþykkti að Ísland skyldi sækja um aðild að Evrópusambandinu, þó talsverður hópur þessara sömu þingmanna væri að sögn alveg á móti því.
Ólafur skrifar:
Ekki er vafi á því að þingmönnum stjórnarflokkanna er hótað öllu illu, eins og gert var í ESB-málinu í júlímánuði sl. Kannski láta þeir bóka í atkvæðagreiðslu að þeir séu sannfærðir um að Icesave-samningarnir verði til ills eins fyrir þjóðina, en greiði svo atkvæði með þeim! Annað eins hefur gerst á þinginu, sbr. atkvæðagreiðsluna um ESB í sumar. Væntanleg afgreiðsla þessa máls er lítt skiljanleg venjulegu fólki. |
Þetta er sennilegur spádómur hjá Ólafi. Einhverjir vinstrigrænir stjórnarþingmenn munu eflaust reyna að telja sjálfum sér trú um að þeir verði á einhvern hátt saklausari af Icesave-ánauðinni ef þeir fara með þessháttar þulu, í því sem þeir samþykkja hana. En þeir munu ekki blekkja nokkurn annan en sjálfa sig og hugsanlega einn og einn fréttamann Ríkisútvarpsins. Jú og ef þeir eiga hund, þá mun hann af trygglyndi sínu reyna að trúa húsbóndanum líka. En kettinum dettur það ekki í hug.
Þó bloggarar Samfylkingarinnar reyni í örvæntingu að svara sem flestri gagnrýni á Icesave-ánauðina, með því að hún sé í raun „stjórnarandstöðunni að kenna“, þá munu flestir vitibornir menn nú, og nær allir síðar, dæma það tal sem hvern annan þvætting. Fáir hafa reynt, og engum tekist, að færa lögfræðileg rök fyrir því að íslenska ríkið beri ábyrgð á Icesave-skuldunum. Það verður ekki fyrr en með yfirvofandi atkvæðagreiðslu á alþingi sem sú ábyrgð færist yfir á íslenska ríkið. Það verður verk þeirra manna einna sem þá greiða atkvæði með ríkisábyrgð á þessum skuldum, hvernig svo sem þeir gera grein fyrir atkvæðinu. Það atkvæði greiða þeir í eigin nafni, en ekki á ábyrgð Össurar, Steingríms eða Jóhönnu.
Hversu langt eru vitibornir þingmenn vinstrigrænna tilbúnir að ganga, í hugsunarlausri hlýðni við Össur Skarphéðinsson og Jóhönnu Sigurðardóttur?