Íslendingar raða sér ótvírætt í hóp þeirra þjóða sem hafa skilvirkast efnahagslíf og það eitt og sér bendir sterklega til þess að þær stofnanir sem við höfum komið okkur upp flækist ekki um of fyrir efnahagslífinu. Trúverðugleiki er yfirleitt ekki mældur einn og sér en ýmis tengd fyrirbrigði er reynt að mæla. Þannig er t.d. áhugavert að sjá stöðu Íslands hvað spillingu varðar. Ísland var árið 2004 í 3.-4. sæti á lista stofnunarinnar Transparency International þar sem ríkjum er raðað eftir því hvort spilling sé talin þrífast þar eða ekki. Árið áður taldi stofnunin Ísland vera næstópilltasta ríki á eftir Finnlandi en árið 2004 var Nýja-Sjáland í 2. sæti og Danmörk jöfn Íslandi. |
– Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, í erindi á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins 11. janúar 2005. |
E kki fjórum árum eftir að Gylfi Magnússon fagnaði því í ræðu að opinberar stofnanir flæktust ekki fyrir efnahagslífinu og að Ísland þætti eitt allra óspilltasta land í heimi, var hann orðinn ræðumaður á útifundum og tíður gestur í sjónvarpsfréttum, þar sem hann heimtaði afsagnir ráðamanna og reyndist sjálfur hafa flestra manna mest vit á meinsemdum þjóðfélagsins. Á sama tíma var hann raunar einnig stjórnarformaður Samkeppnisstofnunar og hefur vafalaust látið þar oft í ljós þá skoðun sína að stofnanir ættu ekki að þvælast fyrir framsæknum fyrirtækjum.
Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að gagnrýna Gylfa fyrir þessar skoðanir sem hann lýsti hjá Samtökum atvinnulífsins árið 2005. Það er hins vegar dæmigert að á þær er sjaldan minnst núna og allra síst af Gylfa sjálfum. En hvar er þeirra þá getið? Jú, þessi orð Gylfa eru rifjuð upp, ásamt mörgum öðrum orðum annarra manna, í einni af jólabókum ársins, Þeirra eigin orðum, eftir viðskiptablaðamanninn Óla Björn Kárason.
Á þessa bók hefur verið safnað allskyns ummælum spekinga, álitsgjafa, viðskiptajöfra, rithöfunda,. stjórnmálamanna og annarra, á liðnum árum, sem nú eru stundum kölluð „útrásartíminn“. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fer upp í Borgarnes, Ólafur Ragnar Grímsson ræðir „tíu eiginleika sem gert hafa íslensku útrásina glæsilega“, Össur Skarphéðinsson segir að „samþjöppun sé ekki eins skaðleg og hún var áður fyrr“, Jóhanna Sigurðardóttir segir í febrúar 2009 að það sé „fjarstæða“ að skattar verði hækkaðir, „kannski á næstu mánuðum eða svo“, Helgi Hjörvar segir R-listann að verða að klíku í ráðhúsinu og „ekki í tengslum við eitt né neitt“, Bjarni Ármannsson vill ekki fara óábyrgt með fé sitt, Katrín Jakobsdóttir segir „hagsmuni Baugs og Norðurljósa“ hafa verið helsta kosningamál Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir spyr á þingi um kostnað við „Baugsmálið“ og þannig mætti lengi telja.
Margt er það í bók Óla Björns sem myndi gleymast ef glöggur blaðamaður rifjaði það ekki upp. Og margt er þar sem ýmsir hefðu kosið að gleymdist, enda munu margir þegja um útkomu bókarinnar.
Þeirra eigin orð fást í Bóksölu Andríkis og kosta þar 2.990 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu eins og gildir um allar bækur í Bóksölunni. Við erlendar pantanir bætist 600 króna sendingargjald.