Mánudagur 30. nóvember 2009

334. tbl. 13. árg.
Á hverjum degi bætast nú þúsundir manna í þann hóp sem vill veita Ólafi Ragnari stuðning við væntanlega synjun hans á hinu nýja Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Þ að þarf ekki að koma á óvart að dag hvern skori nú þúsundir manna á forseta Íslands að synja nýja Icesave-lagafrumvarpi fjármálaráðherra staðfestingar. Með synjun sinni á lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum, svokölluðu „fjölmiðlafrumvarpi“, lýsti núverandi forseti Íslands því yfir að stjórnarskrárákvæði um synjunarrétt forseta væri ekki aðeins virkt heldur einnig í höndum forsetans persónulega, en ekki ráðherra. Ekki þarf að efa að forsetinn er enn sömu skoðunar.

Rök þau sem forsetinn tíndi til, til stuðnings ákvörðun sinni árið 2004, eiga margfalt frekar við nú en þá. Lagabreytingin árið 2004 var einföld lagabreyting sem alþingi hefði hvenær sem er getað afturkallað eða breytt. Nú vofir hins vegar yfir óafturkræf skuldaviðurkenning til voldugra erlendra ríkja, svo numið getur þúsund milljörðum króna í erlendum gjaldeyri. Annars vegar voru einfaldar lagabreytingar sem hvenær sem var mátti afturkalla, hins vegar þúsundmilljarða óafturkræf skuldbinding sem bindur komandi kynslóðir.

Og þegar horft er til þeirra athugasemda sem forsetinn skráði, er hann staðfesti Icesave-lögin fyrri, nú í sumar, þá blasir við að hann mun synja hinni nýju og gerbreyttu útgáfu laganna staðfestingar. Því er ekki að undra, að þúsundir og aftur þúsundir manna veiti forsetanum nú móralskan stuðning við þá væntanlegu ákvörðun sína, með því að skrá nafn sitt í söfnuninni.

A nnað sem ber að hafa í huga í þessu sambandi er að ráðherrar í núverandi ríkisstjórn og þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem áttu sæti á þingi árið 2004 töldu sjálfsagt og eðlilegt að forsetinn hefði og beitti þessum synjunarrétti. Ekki er vitað til að nokkur stjórnarliði efist um að þessi synjunarréttur sé til staðar. Stjórnarflokkarnir hafa auk þess báðir, eins og aðrir flokkar, lagt á það mikla áherslu að þjóðin fái að segja álit sitt á sem flestum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir munu því vafalaust fagna því að Ólafur Ragnar sendi málið til þjóðarinnar.

R íkisútvarpið frétti af því um helgina að fjármálaráðherra Hollands hefði fyrr á árinu lýst þeirri skoðun að innstæðutryggingakerfinu í Evrópu hafi í raun ekki verið ætlað að bregðast við, ef til kerfishruns kæmi, líkt og gerðist á Íslandi í fyrra. Vitaskuld er þetta mjög fréttnæmt, enda gerir sami fjármálaráðherra miklar kröfur á hendur íslenska ríkinu, sem íslensk stjórnvöld taka undir af fyllstu hörku.

Það er auðvitað ágætt af Ríkisstjórnarútvarpinu að segja frá þessu. En langan tíma tók það. Viðskiptablaðið sagði frá þessu 21. ágúst í sumar, og Vefþjóðviljinn leyfði sér að vekja athygli á því degi síðar. Fyrstur hafði hins vegar bent á þetta hérlendis Sigurður Kári Kristjánsson á heimasíðu sinni. Það tók Ríkisútvarpið rúman ársfjórðung að láta svo lítið að segja áheyrendum sínum frá því að fjármálaráðherra Hollands hefði viðurkennt að innstæðutryggingakerfið ætti í raun ekki að bera þá ábyrgð sem Bretar, Hollendingar og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vilja að íslenskir skattgreiðendur taki nú á sig, algerlega án lögfræðilegra raka.

Kannski tekur Ríkisútvarpið sér annan ársfjórðung í að velta fyrir sér að spyrja þau Steingrím og Jóhönnu hvort þau hafi hermt þessi ummæli upp á hollenska ráðherrann. Og hvort íslenska „samninganefndin“ hafi einhvern tíma leyft gagnaðilum sínum að glíma við þau.