Þ að er leitt þegar tölvupóstar manna á millum eða önnur gögn eru tekin ófrjálsri hendi og birt í fjölmiðlum. Það er sama hve lítt efni þeirra varðar hinn almenna mann, alltaf munu fjölmiðlamenn fara með þuluna um að það eigi erindi við almenning og þeir sjálfir séu fulltrúar almennings hér á Jörð. Yfirleitt dugar það til að þagga niður í þeim sem hafa efasemdir um réttmæti þjófnaðarins.
Spegill Ríkisútvarpsins fékk til að mynda stóran fóðurskammt þegar upplýsingum úr lánabók Kaupþings var stolið og þær settar á netið. Kjamms.
Nýlega var miklum fjölda tölvupósta frá stolið frá starfsmönnum loftslagsrannsóknarstofnunar (CRU) háskólans í East Anglia og þeir svo birtir á netinu. Í þessum póstum kemur að minnsta kosti þrennt áhugavert fram.
- Áætlanir um að hindra að svonefndir efasemdarmenn í loftslagsmálum fái aðgang að rannsóknagögnum. Meðal annars lagt til að gögnum sé hreinlega eytt svo gagnrýnendur geti ekki farið yfir þau.
- Af póstunum má ráða að menn hafi kerfisbundið reynt að láta hin flóknu tölvulíkön sem vísindi þessi styðjast við lækka hita í fortíðinni en magna seinni tíma hita í þeim tilgangi að sýna sem mesta hækkun.
- Pósturinn sýnir að reynt var að koma í veg fyrir að vísindarit birtu verk gagnrýnenda.
Þessu til viðbótar má svo finna í póstunum hefðbundið karlagrobb eins og heitstrengingar um að „lúberja“ ákveðna menn á næstu vísindaráðstefnu til að koma vitinu fyrir þá. Og svo umræður um þau „gleðitíðindi“ að einn efasemdarmaðurinn hafi látist.
Þeir vísindamenn sem í hlut eiga hafa allir gert miklar kröfur um aðgerðir gegn gróðurhúsaáhrifunum því þau stefni lífi á Jörðinni í voða. Þessar aðgerðir eru óheyrilegar dýrar. Það varðar almenning miklu að eðlileg umræða fari fram um þennan meinta voða og að rándýrar aðgerðir séu byggðar á skynsamlegum forsendum. Það mætti því ætla að Spegill Ríkisútvarpsins hefði allt sem hann þarf til að segja frá hinu safaríka innihaldi tölvupósta loftlagsgúrúana. Spegillinn sjálfur hefur aldrei dregið af sér þegar kemur að loftslagsmálum. Umsjónarmaður hans, Friðrik Páll Jónsson, flutti ótrúlega lofrullu 5. september 2006 um hina áhrifaríku áróðursmynd Al Gore An Inconvenient Truth. Hann hafnaði jafnframt tillögum um að önnur sjónarmið fengju að komast að.
Merkileg heimildarmynd og þörf hugvekja var sýnd á fyrstu dögum kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík. Myndin er kennslustund, þar sem kennarinn Al Gore, sýnir á skipulegan og sannfærandi hátt hvaða hætta steðjar að jarðarbúum ef ekki verður brugðist við og losun gróðurhúsalofttegunda takmörkuð. Valið stendur á milli þess að gera ekkert og sjá fram á lok siðmenningar eða tryggja börnum og barnabörnum lífvænlega framtíð með aðgerðum. |
Svo afdráttarlaus voru þau orð umsjónarmanns Spegilsins.
En nú þegar upp kemst um það sem lítur út fyrir að vera svívirðilegar starfsaðferðir manna sem almenningur greiðir stórfé til að rannsaka loftslagsbreytingar er Spegilinn alveg laus við áhuga. Þótt málið varði það sem Friðrik Páll telur geta valdið slitum siðmenningar og afdrifum barna og barnabarna er ekkert minnst á málið.
Á fimmtudaginn fjallaði Friðrik Páll Jónsson um loftslagsráðstefnuna sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember. Þar var sagt frá hinum „miklu sóðum andrúmsloftsins“, Bandaríkjamönnum og Kínverjum. Ekki var minnst einu orði á þessa tölvupósta sem eru þó á forsíðum dagblaða um allan heim, jafnvel þeirra vinstri sinnuðu blaða sem umsjónarmenn Spegilsins vitna helst til, eins og The Guardian og The New York Times.
En burtséð frá slagsíðunni í Speglinum þá minnir þetta mál allt saman einkum á þá staðreynd að stór hópur manna hefur mikla atvinnuhagsmuni af því að gera mest úr „loftslagsvandanum“. Það gefur auga leið að fjárframlög til rannsókna á loftslaginu ráðast mjög af því hve alvarlegan vandann menn telja. Efasemdarmenn eru því eðlilega ekki vel séðir meðal atvinnumanna í loftslagsmálum. Það kemur því ekki á óvart að menn leggi ýmislegt á sig til að þagga niður í slíkum mönnum.