S vo virðist sem ýmsir hafi ekki veitt athygli reglulegum tíðindum af þroti fjölda banka vítt og breitt um Vesturlönd undanfarin misseri. Þessir menn halda að bankakreppan sé séríslenskt fyrirbæri sem rekja megi til einkavæðingar íslensku bankanna eða jafnvel kvótakerfisins sem fest var í sessi í tíð vinstri stjórnarinnar 1988 til 1991.
En bankar hrundu ekki aðeins í raunveruleikanum heldur einnig í hliðarveröld þeirri sem seðlabankar búa til. Englandsbanki upplýst til að mynda nýlega um gríðarlegar leynilánveitingar sínar til að minnsta kosti tveggja einkabanka þar í landi. Samtals fengu Royal Bank of Scotland og HBOS 62 milljarða punda undir borðið um það leyti sem bresk fjármálayfirvöld gengu endanlega frá Kaupþingi. Án þessarar ríkisaðstoðar hefðu bankarnir hrunið og ef til vill dregið stóran hluta breska fjármálakerfisins með sér.
Það er áhugaverð spurning hversu margir bankar stæðu eftir í Evrópu ef þeir hefðu ekki getað leitað beint og óbeint, leynt og ljóst, í vasa skattgreiðenda í gegnum seðlabanka og ríkissjóði. Á Íslandi var slík veruleg ríkisaðstoð ekki raunhæf eftir að bankarnir höfðu vaxið ríkinu langt yfir höfuð. Þar er svarið afgerandi. Hins vegar var farið í það eftir að bankarnir hrundu að þjóðnýta skuldir þeirra við breska og hollenska sparifjáreigendur. Fremst í flokki þjóðnýtingarsinna fara Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir sem skrifaði nýlega í bréfi til Browns forsætisráðherra að Íslendingum bæri ekki lögum samkvæmt að greiða þessar skuldir – en myndu samt gera það!
Þegar skattgreiðendur á Vesturlöndum hafa fengið að kenna svo eftirminnilega á samkrulli banka og ríkisvalds mætti ætla að menn hefðu fengið nóg. En, nei, nei. Nú stendur ekki til að skera á ábyrgðir ríkisins á bankastarfsemi heldur auka þær á allan hátt. Það á að herða löggjöf og efla eftirlit ríkisins þótt það hafi aldrei verið meira en einmitt undanfarin ár. Og næst þegar eitthvað fer úrskeiðið geta menn skellt skuldinni á skattgreiðendur því að ríkið átti jú að hafa eftirlit með þessu.
H vernig er annars með áfengisvarnaráð íslenska ríkisins? Gamall frændi Vefþjóðviljans datt nýlega í það í Lundúnum og lagði postulínsdeildina í Harrods í rúst. Áfengisvarnaráð hefur augljóslega brugðist eftirlitsskyldu sinni. Ráðið hefur verið fjársvelt því fjárveiting til þess hefur aðeins tvöfaldast undanfarin og þannig dregist langt aftur úr öðrum ríkisstofnunum. Þeir á Vogi hleyptu honum líka alltof snemma út. Regluverkið hefur heldur ekki verið nægilega strangt og íslenskir ættingjar mannsins meðvirkir á ýmsan hátt. Íslenskir fjölmiðlar birtu glansmyndir af honum á stöðunum og ýttu undir ruglið. Hann er fæddur og uppalinn á Íslandi. Hann er með íslenska kennitölu.
Sjá menn ekki að Íslendingar geta ekki hlaupist frá þessum skuldbindingum sínum?