Föstudagur 20. nóvember 2009

324. tbl. 13. árg.
Sat í ríkisstjórn þegar bankarnir fóru í þrot. Var þá annar oddvita ríkisstjórnarinnar sem staðgengill í veikindaleyfi formanns Samfylkingarinnar. Eftir mikil mótmæli gegn ríkisstjórninni var Össur hækkaður í tign og gerður að utanríkisráðherra. Mótmælin þögnuðu um leið.
Sat í ríkisstjórn þegar bankarnir fóru í þrot. Eftir mikil mótmæli var Jóhanna hækkuð í tign og gerð að forsætisráðherra. Mótmælin þögnuðu um leið.
Taldi að maður gæti ekki starfað sem ráðuneytisstjóri á meðan fjármálaeftirlitið rannsakaði hlutabréfaviðskipti hans. Unir sér vel í ríkisstjórn með Össuri „undir verkstjórn“ Jóhönnu á meðan skoðun stendur yfir á verkum þeirra í fyrri stjórn.

N ú liggur fyrir að svonefnd rannsóknarnefnd alþingis skoðar framgöngu og framgönguleysi síðustu ríkisstjórnar í aðdraganda falls bankanna í fyrra. Samkvæmt fréttum kann ákvörðun um að ákæra ráðherrana að fylgja í kjölfarið. En hver er staða ráðherra síðustu ríkisstjórnar nú?

Eins og allir vita þá eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins allir horfnir úr ríkisstjórn og raunar einungis Þorgerður Gunnarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Einar K. Guðfinnsson eftir á þingi. En hvernig er með Samfylkingarráðherrana? Þar vildi nú svo merkilega til, að við stjórnarskiptin í vetur voru tveir ráðherrar Samfylkingarinnar hækkaðir í tign, Jóhanna Sigurðardóttir gerð að forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson að utanríkisráðherra. Með öðrum orðum voru tveir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar, er sat þegar bankarnir fóru í þrot, í viðurkenningarskyni hækkaðir upp í tvö virðulegustu ráðherraembætti landsins. Og jafnskjótt og það hafði verið gert, þagnaði pottaglamrið á götunum og fréttastofa Ríkisútvarpsins missti með öllu áhuga sinn á að sýna ráðamönnum aðhald.

Og Össur Skarphéðinsson var ekki bara hefðbundinn fagráðherra í stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Hann var staðgengill formanns síns, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og eins og fólk man þá var hún í veikindaleyfi þegar bankarnir féllu og vikurnar þar á eftir. Össur Skarphéðinsson fór þá fyrir Samfylkingunni og hafði innan ríkisstjórnar stöðu formanns annars stjórnarflokksins.

Og meðan mál ríkisstjórnarinnar eru skoðuð, situr hann keikur sem utanríkisráðherra, við hlið annars ráðherra sömu rannsökuðu stjórnar, Jóhönnu Sigurðardóttur sem nú er forsætisráðherra. Bankamálaráðherra fyrri stjórnar, Björgvin G. Sigurðsson, hefur sömuleiðis verið heiðraður með formennsku í þingflokki Samfylkingarinnar.

Stundum gerist það að skólastjóri telur ástæðu til að athuga hvort kennari hafi brotið af sér í starfi, til dæmis tekið of harkalega á óstýrilátum nemanda. Undanfarin ár hefur þá jafnan verið hafður sá háttur á, að kennarinn fer í leyfi á meðan málið er skoðað. Af og til er kvartað yfir vinnubrögðum einstakra lögreglumanna, að þeir kunni til dæmis að hafa verið of harðhentir við handtöku eða á einhvern annan hátt ekki farið að ýtrustu vinnureglum. Eru þeir þá jafnan sendir í leyfi á meðan málið er skoðað.

Þeir, sem hingað til hafa talað fyrir „leyfi“ þeirra sem sæta rannsókn, hvernig stendur á því að þeir þegja eins og steinar yfir stöðuhækkun þeirra Össurar og Jóhönnu? Hvernig ætli standi á því að enginn fréttamaður nefnir einu orði þá spurningu hvort rétt sé að þau tvö stigi til hliðar á meðan störf þeirra í fyrri ríkisstjórn eru skoðuð? Og sama myndi þá gilda um Kristján Möller samráðherra þeirra.

Í þessu samhengi má geta þess að Steingrímur J. Sigfússon taldi augljóst að Baldur Guðlaugsson gæti ekki verið ráðuneytisstjóri á meðan fjármálaeftirlitið skoðaði hlutabréfaviðskipti hans fyrr á árinu. Steingrímur sendi Baldur í leyfi. Fjármálaeftirlitið gerði ekki athugasemdir við viðskipti Baldurs og hann varð ráðuneytisstjóri í öðru ráðuneyti. Hann sagði svo starfi sínu svo lausu eftir að það „spurðist út“ að sérstakur saksóknari hefði tekið mál hans til skoðunar. Steingrímur ver hins vegar að Össur Skarphéðinsson sitji sem utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir sem forsætisráðherra, á meðan skoðað er hvort ráðherrar í ríkisstjórn, þar sem þau bæði sátu, hafi brotið svo af sér að kalla verði saman landsdóm?

H vað er þetta með ESB og banana? Í frétt mbl.is í gær má lesa um konu nokkra að nafni Catherine Ashton: „Hún fór á síðasta ári til Brüssel til að semja um bananainnflutning frá rómönsku Ameríku, og fríverslun við Kína og Bandaríkin. Nú er hún yfirmaður utanríkismála ESB.“

Í frétt af sömu slóðum kemur fram að flæmski hagfræðingurinn Herman Van Rompuy sé orðinn forseti Evrópu.

Ef Samfylkingunni hefði orðið að ósk sinni um fleygiferð Íslands inn í ESB væru ekki aðeins 500 milljónir manna að googla hvernig það liti eiginlega út fólkið sem væri skyndilega farið að stjórna álfunni án nokkurra almennra kosninga heldur 500,3 milljónir.

Ljótt er það, ástandið í lýðræðismálum ESB.