Í fyrradag var vikið að því hér að sérstök lög um fjármál flokka og frambjóðenda hefðu lamað alla gagnrýna hugsun innan flokkanna undanfarin ár. Lögin tryggðu flokkunum sjálfsafgreiðslu á fjármunum úr vösum skattgreiðenda. Flokkarnir urðu ríkisstofnanir og frambjóðendur verða að skila ríkisvaldinu skýrslum um hvað stjórnmálastúss þeirra kostar og þar með hvernig það fer fram. Allt er þetta þeim sem fyrir eru í stjórnmálum mjög til þæginda en nýjum frambjóðendum til ama.
Ríkisstyrkurinn sem stjórnmálaflokkarnir fá nú ár hvert verndar þá ekki aðeins fyrir utanaðkomandi samkeppni frá nýjum flokkum. Hvers kyns hræringar, málefnaleg endurnýjun, forystuskipti og hallarbyltingar innan flokkanna verða einnig torveldari þegar sitjandi forysta hefur úr opinberum styrk að moða. Ríkisstyrkurinn tryggir að þótt forysta flokks missi trúnað almennra stuðningsmanna flokksins getur hún haldið úti óbreyttri starfsemi, haldið starfsmönnum sínum á launum og rekið áróðursstarf eins og ekkert hafi í skorist.
Nefnd flokkanna sem samdi frumvarpið, sem nú er orðið að lögum, gerði sér raunar góða grein fyrir því hve hætt er við því að lagasetning af þessu tagi gangi nærri sjálfstæði og endurnýjun innan flokkanna. Í skýrslu sem fylgdi frumvarpinu sagði:
Annars vegar má halda því fram að æskilegt sé að forðast sem mest löggjöf sem hlutist til um innri málefni stjórnmálaflokkanna, til að tryggja stöðu þeirra sem sjálfstæðra aðila í stjórnkerfinu og til að tryggja að félagsmenn þeirra hafa stjórn á innri málum þeirra að öllu leyti. |
Nefndin lét sér þetta þó í léttu rúmi liggja þegar á hólminn var komið.
Helsta markmiðið með lögunum varð að koma í veg fyrir spillingu í stjórnmálum. Leiðin til ánauðar er vörðuð fögrum fyrirheitum.
Í skýrslu nefndar stjórnmálaflokkanna sem samdi frumvarpið til laganna er einnig bent á að auk Íslands hafi engin lög um fjármögnun stjórnmálastarfsemi verið í Evrópulöndunum Sviss og Lúxemborg. Nefndin gerði enga beina tilraun til að nýta sér þessa staðreynd til að renna stoðum undir nauðsyn slíkra laga. Enda eru þessi lönd síður en svo þekkt að stjórnmálaspillingu.
Ísland var í fyrsta sæti á lista Transparency International árið 2006 yfir þau lönd sem þar sem er minnst spilling og Sviss í sjöunda sæti og Lúxemborg í því ellefta. Bretland, Bandaríkin, Þýskaland og Frakkland voru fyrir neðan þessi þrjú ríki þótt þar hafi verið í gildi umfangsmikil lög um fjármála flokka.
Alþjóðlegar kannanir af þessu tagi segja auðvitað ekki alla söguna og eru byggðar að mestu leyti á huglægum þáttum en þó mætti ef til vill segja að ekkert bendi til að skortur á boðum og bönnum um fjármál flokka og framboða valdi stóraukinni spillingu. Eftir að lögin um fjármál flokkanna voru sett hér á landi hefur heldur hallað undan fæti hjá Íslandi í könnunum Transparency International. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan, hvort sem litið er á stöðu Íslands gagnvart öðrum ríkjum eða einkunn, hefur staðan versnað undanfarin ár.
Ár |
Staða Íslands yfir minnst spilltu ríkis heims |
Einkunn |
2005 |
1. |
9,7 |
2006 |
1. |
9,6 |
2007 |
6. |
9,2 |
2008 |
7. |
8,9 |
Ísland virðist með öðrum orðum á hraðleið niður listann eftir að sérstök lög um fjármál flokkanna voru sett.