F yrir nokkrum árum voru sett sérstök lög um fjármál frambjóðenda og stjórnmálaflokka. Flokkarnir voru gerðir að ríkistofnunum sem bannað er að afla fjár með öðrum hætti en úr ríkissjóði. Það hefur þeim gengið mjög vel.
Um leið og lögin voru sett lagðist af allt hugsjóna- og hugmyndastarf innan flokkanna. Það er óþægilegt að æpa og góla um meiningar sínar á meðan munnurinn er rennandi fullur úr ríkisspenanum.
Nokkrir ungir menn innan Sambands ungra sjálfstæðismanna virðast þó ekki vera alveg með á nótunum því þeir halda að það eigi að vera starfsemi innan samtaka sinna og hafa sett saman tillögur um hvernig hægt sé að spara í rekstri ríkisins í stað þess að hækka skatta. Svonefndri fréttastofu Ríkisútvarpsins varð svo mikið um þessi ósköp að hún kallaði tillögurnar umsvifalaust „byltingarkenndar“ í fréttatíma í gærkvöldi. Fréttastofan var svo forviða að hún hafði ekki fyrir því að kalla á þessu venjulegu viðmælendur sína til að gefa tillögunum einkunn heldur lýsti því bara sjálf yfir að ungu sjálfstæðismennirnir stefndu að því að bylta þjóðfélaginu.
Svo svakalegar eru þessar tillögur SUS að þær munu færa eyðslu ríkisins allt aftur til ársins 2005 en eins og menn muna frá þeim „frjálshyggjuárum“ var ríkisvaldið nær horfið eftir að útgjöld ríkissjóðs höfðu aukist ár frá ári frá því Jón Þorláksson sá um ríkiskassann og sat við annan mann í ríkisstjórn.